Ekki lagt til að framlengja ívilnanir vegna tengiltvinnbíla

Rafbíll í hleðslu.
Rafbíll í hleðslu.

Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis telur  ekki tilefni til þess að framlengja ívilnanir vegna tengiltvinnbíla frekar en gert er ráð fyrir að fjárhæð virðisaukaskattsívilnunar vegna tengiltvinnbíla lækki um áramótin úr 960.000 krónum á hverja bifreið í 480.000 krónur 

Nefndarmeirihlutinn hefur skilað áliti um lagafrumvarp fjármálaráðherra um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga næsta árs. Í því frumvarpi er tillaga um að fyrrgreindar ívilnanir verði lækkaðar um helming um áramótin og falli alveg niður þegar 15 þúsund tengiltvinnbílar hafa verið skráðir á ökutækjaskrá. Áætlað er að það gerist í í febrúar. Tengiltvinnbílar ganga bæði fyrir hefðbundu eldsneyti og rafmagni og er hægt að tengja þá við rafhleðslustöðvar.

Í áliti nefndarmeirihlutans er vísað til þess, að Bílgreinasambandið, Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök verslunar og þjónustu hafi skilað sameiginlegu áliti um frumvarpið þar sem komi fram að niðurfelling ívilnunarinnar muni orsaka hliðstæða hækkun á útsöluverði tengiltvinnbíla sem muni draga úr líkum á að einstaklingar og fyrirtæki, þar með taldar ökutækjaleigur, kaupi tengiltvinnbíla. Jafnframt sé bent á að aðrar ívilnanir sem nýtast ökutækjaleigum tengist með beinum hætti framangreindri ívilnun vegna tengiltvinnbíla. Í umsögninni er nefndin hvött til þess að taka m.a. til skoðunar að framlengja ívilnunina þannig að heimilt verði að fella niður virðisaukaskatt að hámarki að 960.000 kr. til og með 31. desember 2022 auk þess sem fjöldatakmörkunin á bifreiðunum verði hækkuð.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið sendi efnahags- og viðskiptanefnd minnisblað um málið. Segist nefndarmeirihlutinn taka undir ábendingar ráðuneytisins þess efnis að mikilvægt sé að beina áherslum í orkuskiptum að fjölgun hreinna raforkubifreiða og uppbyggingu innviða vegna þeirra. Í ljósi þess kostnaðar sem áframhaldandi ívilnanir vegna tengiltvinnbifreiða hafi í för með sér fyrir ríkissjóð telji  meirihlutinn ekki tilefni til þess að framlengja ívilnanir vegna þeirra frekar. Að auki bendir nefndarmeirihlutinn á að gildandi ívilnunarkerfi hafi verið heimilað af hálfu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og breytingar á ákvæðinu krefðust því frekara samráðs við stofnunina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert