Halda nú jól í sól suður á Tenerife

Svamlað í sælunni.
Svamlað í sælunni. Ljósmynd/Gísli Gíslason

Mikill fjöldi Íslendinga dvelur á sólarströndum nú um jól og áramót. Margir verða til dæmis á Kanaríeyjum, Tenerife og Gran Canaria, og eru í pakkaferðum íslenskra ferðaskrifstofa. Segja má raunar að síðustu daga hafi verið loftbrú milli Íslands og Gran Canaria, með flugi á mánudag og síðasta vélin fyrir jól fer utan í dag. Tæplega 200 farþegar hafa verið með hverri ferð, heiman og heim.

„Ég var úti á flugvelli núna rétt áðan að sækja hóp, alls 184 farþega, fólkið sem verður hér fram til 3. janúar. Hingað er fólk komið til þess að halda gleðileg jól og vera kann að hangikjöt sé í ferðatöskum einhverra,“ segir Karl Rafnsson, fararstjóri hjá Vita. Hann telur að nokkuð á annað þúsund Íslendinga verði á Gran Canaria um jól og áramót, margir til dæmis á Ensku ströndinni og í Maspalomas, sem er syðst á eyjunni.

„Fólk er áfram um að komast í sólina og hjá okkur er vel bókað, bæði á hótel og í flug,“ segir Þórunn Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Úrvals-Útsýnar. „Okkar áfangastaðir á Spáni núna yfir veturinn eru Tenerife á Kanaríeyjum og aðrir staðir þar. Staðan til næstu vikna litið er góð. Að vísu koma áhuginn og bókanir í bylgjum, sem fylgir því hver staðan á Covid er. Þegar ný bylgja faraldursins rís detta bókanir aðeins niður, en svo jafnast þetta út á nokkrum dögum. Fyrirkomulag sóttvarna ytra er gott og fólk aðlagast vel reglum þar.“

Þægilegt hitastig

Meðal Íslendinga sem eru á Tenerife um þessar mundir er Gísli Gíslason landslagsarkitekt sem dvelst með fjölskyldu sinni í bænum El Chorillo, nokkru fyrir utan höfuðborgina Santa Cruz

„Hitastig hér er núna 20-23 gráður, sem er mjög þægilegt. Við erum hér í stóru húsi og út af fyrir okkur, en vitum af fjölda Íslendinga hér í grenndinni. Vissulega finnur fólk hér vel fyrir veirunni og ýmsum ráðstöfunum sem gilda hennar vegna. Í verslunum er grímuskylda og á veitingastöðum mega ekki fleiri en sex sitja saman við borð. Þá er víða spurt um bólusetningarvottorð, sem gott er að hafa alltaf tilbúið.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert