Íslenskur karlmaður hefur ákveðið að stefna eiginkonu sinni sem hann hefur ekki séð í 16 ár eða síðan árið 2005. Markmið hans er að fá í gegn skilnað þeirra á milli.
Frá þessu er greint í Lögbirtingarblaðinu.
Konan er frá Brasilíu og skömmu eftir að þau giftust í Fíladelfíukirkjunni í Reykjavík ferðuðust þau til heimalands hennar með það í hyggju að setjast þar að. Maðurinn var við störf á sjó úti í um tvo mánuði og þegar hann kom heim hafði konan látið sig hverfa. Maðurinn hefur reynt að hafa upp á eiginkonu sinni síðan án árangurs.
Meðal annars hefur hann haft samband við brasilíska sendiráðið í Osló, sem einnig er sendiráð landsins gagnvart Íslandi, en erindum hans hefur ekki verið svarað.
Í málavaxtalýsingu stefnunnar segir að maðurinn hafi verið með stopula búsetu síðastliðin ár en síðan 2018 hefur hann búið í Danmörku. Nú er svo búið að maðurinn er kominn aftur heim til Íslands og lögheimili hans skráð hér á landi.
„Honum er alls ekki kunnugt um hvar stefnda kunni að vera niðurkomin né þekkir hann neinn sem getur upplýst hann um það. Hann hefur ekkert heimilisfang á hana, hvorki í Brasilíu né annars staðar. Nafn stefndu er algengt og hefur stefnanda ekki tekist að hafa upp á stefndu með aðstoð internets þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir,“ segir í stefnunni.
Þar segir einnig að stefnandi geti ekki fengið í gegn lögskilnað hjá sýslumanni þar sem frestur til ógildingar hjúskaparins er löngu liðinn. Hann fer því þess á leit við Héraðsdóm Reykjavíkur að úrskurða í málinu. Í stefnunni segir að hann fari ekki fram á annað en lögskilnað og málskostnað, en ekki skiptingu bús þar sem hjónin hafi aldrei stofnað til heimilis.
„Aðilar voru eignalausir á þeim tíma sem þau voru samvistum og höfðu í raun aldrei stofnað sameiginlegt heimili. Þau áttu heldur ekki nein börn saman né voru börn á heimili þeirra,“ segir í stefnunni.