Það er löngu orðin hefð hjá grunnskólum landsins að skreyta hurðir skólanna fyrir jólin. Krakkarnir í Kvíslarskóla í Mosfellsbæ lögðu mikinn metnað í skreytingarnar sínar í ár og var hver hurðin annarri flottari. Ein þeirra vakti þó sérstaklega mikla lukku.
Það var hurð nemenda í 9. EJÚ í Kvíslarskóla en hún var skreytt með heldur óhefðbundnari hætti en aðrar hurðar. Völdu nemendurnir nefnilega að skreyta hana með jólageit IKEA. Það væri þó ekki frásögur færandi nema fyrir þær sakir að þeir höfðu hana í ljósum logum líka.
Þeim hefur sennilega þótt það viðeigandi í ljósi þess hve oft hefur verið reynt að kveikja í geitinni umræddu, bæði hér á Íslandi sem og annarsstaðar úti í heimi.
Einn nemandanna sendi IKEA svo mynd af hurðinni fyrir hönd bekkjarins og birti fyrirtækið myndina á Facebook-síðu sinni í gær.
„Nemandinn sem sendi okkur myndina sagði bekkinn hafa fengið innblástur frá okkur fyrir þessari skreytingu og okkur fannst það bara frábært, fyndið og skemmtilegt,“ segir Kristín Lind Steingrímsdóttir, markaðsstjóri IKEA, innt viðbragða.
Spurð segir Kristín forsvarsmenn fyrirtækisins bara hafa tekið því vel að krakkarnir hafi valið að hafa geitina í ljósum logum á hurðinni.
„Það eru svo margir búnir að leika sér að þessu á þennan hátt og við gerum ráð fyrir því að það liggi enginn slæmur ásetningur á bakvið þetta,“ segir hún létt í bragði. „Þetta er allt bara góðlátlegt grín.“
Þá segir hún IKEA hafa beðið krakkana um leyfi fyrir myndbirtingunni og svo fært þeim smákökudeig frá fyrirtækinu að gjöf.
„Þannig þau gátu bakað smákökur saman og haldið smá jólastund í skólanum.“
Hafið þið ekkert íhugað að brenna þessa jólageit bara sjálf á hverju ári, bjóða upp á heitt kakó og smákökur og láta fólk borga inn?
„Nei, það hefur ekki komið til umræðu,“ segir Kristín og skellir upp úr. „Við erum mjög stolt af þessu jólaskrauti og viljum bara alls ekki að hún sé brennd.