Að sögn verslunarmanna munu landsmenn fá kósí jólapakka í ár. Kerti og kósíföt hafa notið sérstakra vinsælda, huggulegheitin allsráðandi.
Kringlan hefur iðað af lífi síðustu vikur. Framkvæmdastjóri hennar segir árið í ár vera á pari við jólin 2019.
„Jólaverslunin hefur verið mjög góð. Hún er meiri en í fyrra og ef ég miða við árið 2019 þá virðist hún fram til þessa vera á pari við 2019. Aðsóknin er nokkuð jöfn yfir daginn og álagið dreifist vel,“ segir Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar, við Morgunblaðið.
Sigurjón finnur mikið fyrir því að landsmenn vilji hafa notalegt heima hjá sér. „Við finnum mikið fyrir því að þessi kósí stemning er talsvert ráðandi hjá okkur og jogginggallinn er þar áberandi en svo er gjafavaran auðvitað alltaf vinsæl.“
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.