Ný skjálftahrina fyrst og fremst vonbrigði

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bæjarstjórinn í Grindavík, Fannar Jónasson, segir það helst vonbrigði að nú fari í hönd enn ein skjálftahrinan á Reykjanesskaga. Síðast uppúr klukkan níu í morgun reið yfir skjálfti sem var 4,9 að stærð og fannst víða, líklega hvergi betur en í Grindavík. 

Fannar segir við mbl.is að Grindvíkingar séu orðnir ýmsu vanir og að flestir kippi sér ekki mikið upp við hristinginn, en þó séu margir skiljanlega orðnir þreyttir á ástandinu. 

„Við höfum búið svo vel síðustu mánuði að það hafa engir skjálftar verið, en nú byrjar þetta aftur og það hefði alveg mátt missa sín, það er ekki hægt að neita því," segir Fannar og bætir við:

„Þetta eru nú aðallega vonbrigði frekar en nokkuð annað að þetta sé komið aftur af stað.“

Möguleg kvikuhreyfing í gangi

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur sagði við mbl.is fyrr í morgun að ekki væri hægt að útiloka að kvikuhreyfingar væru orsakavaldur þeirra skjálfta sem fundist hafa síðasta tæpa sólarhringinn eða svo. Hann segir að vísindamenn verði að „bíða og sjá“.

Bæjarstjóri segir að almannavarnir og vísindamenn hafi verið kallaðir saman til þess að meta ástandið. 

„Við höfum verið að bera saman bækur okkar í morgun, við sem erum í almannavarnateyminu. Það verður fundað eitthvað í dag með formlegum hætti. Við fylgjumst með þessu og fáum vísindamennina með okkur í það að skoða stöðuna og geta til um framhaldið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert