Óvissa sem fylgir Ómíkron-afbrigðinu er á meðal áhrifaþátta í sóttvarnaaðgerðum en af þeim 11.000 sem greinst hafa með Ómíkron-afbrigðið í Danmörku hafa 0,7% þurft á spítalainnlögn að halda. Innlagnatíðni er 1,5% vegna annarra afbrigða, að því er fram kemur í minnisblaði sóttvarnalæknis.
Embætti landlæknis gat ekki veitt upplýsingar um innlagnatíðni hér á landi vegna afbrigðisins en Runólfur Pálsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Landspítala, segir að slíkt muni líklega skýrast á næstu dögum, þar sem smitum er nýlega farið að fjölga hratt.
„Það má segja að þessi bylgja í Danmörku sé kannski tveimur vikum á undan okkur. Það er ekki farið að reyna á þetta enn þá en það er líklegt að það muni gerast á næstu dögum,“ segir hann. Staðan sé þung á spítalanum nú þegar þar sem margir leiti þangað vegna annarra veikinda.
„Það geta liðið nokkrir dagar frá því fólk sem greinist með smit fær vaxandi einkenni og kemur til okkar,“ segir hann.
Sóttvarnalæknir lagði til að 20 manns mættu koma saman og féllst ríkisstjórnin á það ásamt fleiri takmörkunum, sem taka gildi á miðnætti. Ríkisstjórnin ákvað þetta með hliðsjón af fjölgun smita og óvissu sem fylgir Ómíkron-afbrigðinu, sem sóttvarnalæknir fjallar ítarlega um í minnisblaði sínu en þar segir að þrátt fyrir að fyrstu tölur bendi til vægari einkenna vegna afbrigðisins sé ekki hægt að fullyrða um hvort það valdi alvarlegri eða vægari veikindum.
Rannsóknir síðustu vikna hafa sýnt fram á að smithæfni Ómíkron-afbriðgisins er í það minnsta helmingi meiri en smithæfni Delta-afbrigðisins, að því er fram kemur í minnisblaði sóttvarnalæknis. Í Danmörku höfðu um 80% þeirra sem greindust með Ómíkron-afbrigðið fengið tvær bólusetningar, um 10% fengið þrjár og voru 10% óbólusettir.