Stúfur mælist í fyrsta sinn vinsælastur

Jólasveinarnir eru á stjá um þessar mundir.
Jólasveinarnir eru á stjá um þessar mundir. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Stúfur mælist nú í fyrsta sinn vinsælasti jólasveinninn samkvæmt könnun MMR en Kertasníkir hefur lengi verið vinsælasti jólasveinn landsmanna.

Alls nefndu 30% svarenda í könnun þessa árs Stúf sem sinn uppáhalds jólasvein en 28% nefndu Kertasníki. 

37% kvenna nefndu Stúf sem sinn uppáhalds jólasvein og 22% karla. Kertasníkir náði 36% á meðal kvenna en 20% á meðal karla.

Þá reyndist Stúfur einnig vinsælastur meðal yngstu svarenda eða 34% og fóru vinsældirnar minnkandi með auknum aldri en 26% þeirra 68 ára og eldri sögðu hann sitt uppáhald.

Líkt og fyrri ár eru Þvörusleikir, Gáttaþefur, Askasleikir og Pottaskefill óvinsælastir jólasveinanna. 

Könnunin var framkvæmd dagana 13. til 20. desember 2021 og var heildarfjöldi svarenda 2.051 einstaklingur, 18 ára og eldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert