Þriggja bíla árekstur á Snæfellsnesvegi

Lögreglan á Vesturlandi auk rannsóknarnefndar umferðarslysa var send á vettvang.
Lögreglan á Vesturlandi auk rannsóknarnefndar umferðarslysa var send á vettvang. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þriggja bíla árekstur varð á Snæfellsnesvegi rétt eftir hádegi í dag. Tólf voru í bílunum, börn sem og fullorðnir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Vesturlandi.

Lögregla og tækjabifreið frá slökkviliði auk sjúkraliða voru send á vettvang vegna árekstursins. Segir þá einnig að beita hafi þurft klippum til þess að ná einum hinna tólf út.

Ekki liggja fyrir upplýsingar að svo stöddu um alvarleika meiðslanna en einn var fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku í Fossvogi og aðrir á sjúkrahúsið á Akranesi til aðhlynningar.

Bílarnir þrír sem rákust saman voru ekki ökuhæfir eftir óhappið og voru því fluttir af vettvangi með kranabifreiðum í kjölfarið. Rannsóknardeild lögreglunnar á Vesturlandi ásamt rannsóknarnefnd umferðarslysa fór á vettvang.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert