Tillaga um 2,5% hækkun sóknargjalda

Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis leggur til að sóknargjöld verði 1107 krónur á mánuði á hvern einstakling 16 ára og eldri á næsta ári en það sé 2,5% hækkun frá því sem nú er. 

Í fruvarpi fjármálaráðherra um ráðstafanir vegna fjárlaga næsta árs er bráðabirgðaákvæði  um að föst krónutala sóknargjalda verði 985 kr. á mánuði árið 2022 fyrir hvern einstakling. Um sé að ræða undanþágu frá meginreglu laganna að fjárhæð sóknargjalda breytist í samræmi við áætlaða breytingu á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga 16 ára og eldri, sem og fjölgun einstaklinga.

Nefndarmeirihlutinn bendir í áliti um frumvarpið á, að í greinargerð frumvarpsins virðist gæta misskilnings en þar segi að lagt sé til að föst krónutala hækki úr 980 kr. á mánuði samkvæmt gildandi lögum í 985 kr. eða um 0,5%. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða við lögin hafi sóknargjald hins vegar numið 1.080 kr. á mánuði árið 2021. Sé því lagt til í frumvarpinu að sóknargjöld lækki.

Meirihluti nefndarinnar leggur til að sóknargjaldið verði 1107 krónur eins og áður sagði. Nemi hækkunin 2,5% sem sé í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert