Allt kapp er lagt á að halda úti óskertri þjónustu á starfsstöðum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar þrátt fyrir hertar aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins. Neyðarstjórn borgarinnar starfar á hættustigi og eru leiðbeiningar frá borginni gefnar út í samræmi við gildandi almannavarnastig og takmarkanir sem stjórnvöld hafa gefið út.
Fengist hafa undanþágur á tuttugu manna fjöldatakmörkunum í húsnæði fyrir fatlað fólk, í þjónustuíbúðum, dagdvölum og á vinnu- og virknimiðuðum starfsstöðum, sem auðveldar til muna að halda úti óskertri þjónustu, að kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg
Þar gildir hins vegar eins og annars staðar tveggja metra regla og að nota skal grímu ef ekki er hægt að virða hana.
Þjónustumiðstöðvar velferðarsviðs eru opnar en umferð um þjónustuskála miðstöðvanna er takmörkuð eins og kostur er. Fólki er því bent á að nýta símtöl og tölvupóst til að panta viðtöl eða boða komu sína ef hægt er, frekar en að koma á staðinn.
Félagsmiðstöðvar fyrir fullorðið fólk eru jafnframt opnar, ásamt matarþjónustu, að undanskildu mötuneytinu á Vitatogi sem verður lokað fyrir aðra en íbúa hússins. Það er hins vegar hægt að fá heimsendan mat með því að hafa samband í síma 411 9450 eða senda pöntun á maturinnheim@reykjavik.is.
Samkvæmt ákvörðun heilbrigðisráðherra munu skólar halda sínu striki, en á öllum skólastigum er hámarksfjöldi þó 50 börn í rými og hámarksfjöldi starfsfólks er 20 í rými.
Forráðamönnum leikskólabarna gefst, vegna aukinna smita í samfélaginu, kostur á að hafa börn í jólafríi 22. og 23. desember og á milli jóla og nýárs, dagana 27.-30. desember og verða þá leikskólagjöld og gjöld vegna frístundaþjónustu felld niður. Forráðamönnum er bent á að sækja um niðurfellingu á gjöldum á www.vala.is.
Hertar aðgerðir hafa líka áhrif á sund- og baðstaði sem aðeins mega taka á móti 50% af hámarksfjölda gesta, sem og skíðasvæðin en þar gilda sömu fjöldatakmarkanir ásamt grímuskyldu í röðum og stólalyftu og veitingasala verður lokuð.