Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að veita veitingastöðum undanþágu frá fjöldatakmörkun nýrrar reglugerðar um takmarkanir á samkomum þann 23. desember. Áður höfðu Bubbi Morthens og Emmsjé Gauti fengið undanþágu vegna tónleikahalds á morgun.
Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir að veitingastöðum verður því heimilt að taka á móti 50 gestum í rými á morgun í stað 20 líkt og kveðið er á um í reglugerð.
Að fjöldatakmörkunum slepptum verður skylt að viðhafa allar þær sóttvarnaráðstafanir sem kveðið er á um í reglugerðinni. Veitingastöðum ber því að loka á þeim tíma sem kveðið er á um í reglugerðinni, þ.e. kl. 21.00.
„Þetta er gert til að gæta meðalhófs í ljósi þess hve skammur fyrirvari er á gildistöku reglugerðar um hertar sóttvarnaaðgerðir,“ segir í tilkynningunni.
Þá eru rekstraraðilar hvattir til þess að gæta áfram ýtrustu sóttvarnaráðstafana, svo sem með greiðu aðgengi að handspritti, tryggja grímunotkun og gæta að 1 metra nálægðarmörkunum milli ótengdra aðila.