Andlát: Egill Skúli Ingibergsson

Egill Skúli Ingibergsson.
Egill Skúli Ingibergsson. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Egill Skúli Ingibergsson, fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík, lést á líknardeild Landspítalans í fyrrinótt, 22. desember, 95 ára að aldri.

Skúli fæddist 23. mars 1926 í Vestmannaeyjum og ólst þar upp til 18 ára aldurs. Foreldrar hans voru hjónin Ingibergur Jónsson (1897-1960) sjómaður og verkamaður og Margrét Guðlaug Þorsteinsdóttir (1898-1960) verkakona. Þau bjuggu í Eyjum lengst af.

Skúli fór á unglingsaldri til náms í Verzlunarskóla Íslands og varð stúdent þaðan, en tók á sama tíma stúdentspróf úr stærðfræðideild MR. Síðan fór hann í Háskóla Íslands í verkfræðideild og lauk BS-gráðu þar. Eftir það til Kaupmannahafnar í DTH og lauk þaðan meistaragráðu í verkfræði 1954.

Eftir nám vann Skúli hjá Orkumálastofnun og Rafmagnsveitum ríkisins til loka árs 1958. Fór þá vestur á firði og vann við gangsetningu Reiðhjallavirkjunar í Bolungarvík og Mjólkárvirkjunar. Var seinna veitustjóri Rafmagnsveitna ríkisins á Vestfjörðum. Árið 1964 stofnaði hann ásamt Guðmundi Jónssyni verkfræðistofuna Rafteikningu. Var jafnframt yfirverkfræðingur hjá Rafmagnsveitum ríkisins. Árið 1968 fór hann til Landsvirkjunar sem aðstoðarrekstrarstjóri og 1969 að Búrfellsvirkjun og stjórnaði niðursetningu véla þar. Vann eftir það í Sigölduvirkjun sem staðarverkfræðingur Landsvirkjunar allt fram til ársins 1975.

Árið 1978 var Skúli ráðinn borgarstjóri í Reykjavík og gegndi því starfi í tíð vinstri meirihlutans sem var við völd í borginni fram til ársins 1982. Fyrir og eftir borgarstjóratíð sína vann Skúli hjá Rafteikningu, auk þess að gegna fjölmörgum félags- og trúnaðarstörfum. Var meðal annars formaður Verkfræðingafélags Íslands um skeið, í forystu Velunnarafélags Borgarspítalans og gegndi trúnaðarstörfum fyrir Lionsklúbbinn Fjölni í nokkur ár.

Eiginkona Skúla var Ólöf Elín Davíðsdóttir (1930-2019) húsmóðir.

Þau voru búsett í Skerjafirði og síðar í Kringlunni.

Börn þeirra eru Kristjana, f. 1955, kennari, Valgerður, f. 1956, verslunarmaður, Inga Margrét, f. 1960, félagsráðgjafi, og Davíð, f. 1964, viðskiptafræðingur. Barnabörnin eru 14 og barnabarnabörn 21.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert