Fá jólagjafir og matarpakka en ekkert jólaboð

Fólk fær matarpakka og gjafir en ekkert boð.
Fólk fær matarpakka og gjafir en ekkert boð. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Hjálpræðisherinn í Reykjavík hefur aflýst jólaboði sínu á aðfangadag vegna fjölda Covid-19-smita í samfélaginu. Rúmlega 300 gestir og sjálfboðaliðar höfðu skráð sig í boðið, þar af um 150 börn.

Þeir sem höfðu skráð sig í jólaboðið munu þó geta fengið matarsendingu og jólagjöf frá Hjálpræðishernum. Í kringum 20 sjálfboðaliðar munu aðstoða við afhendingu pakkanna.

„Við sjáum fram á að við getum afgreitt alla þá sem voru skráðir með matarpakka og jólagjöfunum sem voru áætlaðar fyrir hvern og einn. Við munum reyna að koma pökkunum til þeirra sem ekki geta sótt pakkana til okkar,“ segir Hjördís Kristinsdóttir, svæðisforingi og flokksleiðtogi Hjálpræðishersins í Reykjavík, í samtali við Morgunblaðið. Hjördís segir Hjálpræðisherinn hafa fengið mikinn stuðning frá bæði einstaklingum og fyrirtækjum vegna þessara breytinga á planinu. „Við höfum fengið ómetanlegan stuðning frá bæði einstaklingum og fyrirtækjum sem hafa brugðist við þegar þau heyrðu af því að við þyrftum að breyta þessu hjá okkur. Við erum mjög þakklát fyrir það.“

Þrátt fyrir nýjar sóttvarnatakmarkanir mun Hjálpræðisherinn enn geta þjónustað þann hóp fólks sem sækir til þangað hádegismat daglega. „Við erum alltaf að gefa rúmlega 100 manns að borða í hádeginu en það dreifist á tvo tíma og við náum að dreifa þeim meira um húsið. Því munum við halda áfram að þjónusta þennan hóp.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert