Furðulegt háttalag jólageitar um nótt

Lífið hefur ekki farið ljúfum höndum um jólageit IKEA.
Lífið hefur ekki farið ljúfum höndum um jólageit IKEA. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það markar alltaf ákveðin tímamót þegar sænska jólageitin er sett upp við IKEA og kemur hún þeim sem eiga leið hjá henni oftar en ekki í mikið jólaskap. Lífið hefur þó ekki alltaf farið ljúfum höndum um þessa gríðarstóru strágeit, ekki frekar en sænsku systur hennar sem hafa margar hverjar orðið eldi að bráð í gegnum tíðina.

Kveikt í geitinni í Svíþjóð þrátt fyrir mikla gæslu

Kveikt hefur verið í 38 jólageitum í Svíþjóð síðan IKEA setti fyrstu geitina upp þar í landi árið 1966. Að brenna geitina eða skemma hana á einhvern hátt er þó ólöglegt samkvæmt sænskum lögum og getur sá sem gerist brotlegur við þau lög átt yfir höfði sér allt að 3 mánaða fangelsisdóm. 

Á föstudaginn síðastliðinn brann jólageitinn sem sett hafði verið upp í borginni Gävle í Svíþjóð í ár til grunna. Í kjölfarið var karlmaður á fertugsaldri handtekinn, grunaður um að hafa kveikt í geitinni. Málið er enn til rannsóknar hjá lögreglu en sá grunaði hefur neitað sök, að því er greint frá í frétt BBC.

Jólageitin á Íslandi kveikti í sér sjálf eitt árið

Sænsk viðurlög virðast þó ekki hafa komið í veg fyrir að þessi ósiður, sem að brenna geitina er, bærist hingað til lands en samkvæmt upplýsingum Guðnýjar Camillu Aradóttur, yfirmanns samfélagsábyrgðar og samskiptadeildar IKEA á Íslandi, hefur minnst þrisvar sinnum verið kveikt í jólageitinni við IKEA við Kaup­tún í Garðabæ. Það var árið 2010, 2012 og síðast árið 2016.

Þá hafa tvær geitur fallið í valinn vegna óveðurs, ein árið 2011 og önnur árið 2013.

Árið 2015 virðist svo sem geitin hafi fengið nóg en þá kveikti hún bara í sér sjálf. Réttara sagt þá kviknaði í út frá jólaseríu sem hékk utan á geitinni sem varð til þess að hún brann til kaldra kola.

Í dag er geitin vel girt af með rafmagnsgirðingum og vernd hennar aukin með sólarhringsgæslu, bæði með öryggisvörðum og myndavélum, að sögn Guðnýjar. Hún hafi því fengið að standa óáreitt síðan árið 2016, enn sem komið er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert