Kvika gæti komið skyndilega upp á yfirborðið

Horft yfir hraunið í september.
Horft yfir hraunið í september. mbl.is/Björn Jóhann

Jarðskjálftavirknin á Reykjanesskaga hefur gengið upp og niður að undanförnu, með um klukkutíma löngum þyrpingum á nokkurra klukkustunda fresti. Líklegast þykir að kvika sé að færast til í jarðskorpunni, eftir kvikuganginum sem myndaðist í aðdraganda eldgossins í vor.

Á þetta er bent í tilkynningu á vef Veðurstofunnar. Þar segir að skjálftavirknin sé á svæðinu frá Nátthagakrika að Litla-Hrúti. Flestir skjálftarnir eigi sér stað nærri gosstöðvunum, á um fimm til átta kílómetra dýpi.

Um eftirmiðdag í gær dró lítillega úr virkninni, en um kl. 22.30 jókst hún á ný með hviðu af aukinni skjálftavirkni sem hefur verið túlkuð sem kvikuhlaup.

Gæti bara sést á vefmyndavélum

„Áfram verður fylgst náið með virkninni en búast má við að hún haldi áfram að vera lotubundin með hviðum sambærilegum þeim og sést hafa síðasta sólarhringinn. Út frá þeim gögnum og mælingum sem liggja fyrir núna eru vísindamenn sammála um að ekki sé hægt að útiloka að kvika geti komist upp á yfirborð með skömmum fyrirvara,“ segir í tilkynningunni.

Ef horft sé til virkninnar við upphaf goss í mars er mögulegt að kvika komist upp á yfirborð án þess að slíkt sjáist á mælitækjum heldur mögulega eingöngu á vefmyndavélum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert