Metár í útflutningi á hrossum

Hrossin sem flutt eru út í ár hafa farið til …
Hrossin sem flutt eru út í ár hafa farið til 20 landa Evrópu og Norður-Ameríku. mbl.is/Þorgeir

Á árinu hafa 3.341 hross verið flutt úr landi. Síðasta sendingin átti að fara um borð í flugvél Icelandair í gærkvöldi. Er útflutningurinn í ár rúmlega 1.000 hrossum meiri en á síðasta ári og nýtt met í útflutningi. Fyrra met var árið 1996 þegar 2.841 hross var selt úr landi.

Síðasta hrossaflugið átti að vera í fyrrakvöld þegar bókað var flug fyrir um 40 hross til Liege í Belgíu þar sem þau áttu að dreifast um nokkur Evrópulönd. Útflytjendur voru komin með hrossin á Keflavíkurflugvöll seint um kvöldið þegar fluginu var aflýst vegna bilunar í flugvélinni. Gerð var önnur tilraun til að flytja hrossin út í gærkvöldi enda biðu fulltrúar kaupenda í Belgíu eftir hrossunum til að fara með þau til kaupenda víða í Evrópu. Líklega bíða þó fjögur hross sem eiga að fara til Svíþjóðar fram yfir áramót.

Kort/mbl.is

Síðasta sendingin er tekin með í grafíkinni hér til hliðar en Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins hefur tekið þær saman úr Worldfeng, upprunaættbók íslenska hestsins.

Flestir til Þýskalands

Verði heildarfjöldi útfluttra hrossa 3.341, eins og útlit var fyrir þegar þetta var skrifað, er það 1.021 hrossi meira en á síðasta ári. Fjölgunin er 44%. Fyrra Íslandsmet í útflutningi hrossa, frá því skráning hófst, var árið 1996 þegar 2.841 hross var flutt úr landi. Ef frá eru talin tvö síðustu ár hefur fjöldi útfluttra hrossa frá Íslandi verið á bilinu 1.100 til 1.500 á ári.

Hrossin sem flutt eru út í ár hafa farið til 20 landa Evrópu og Norður-Ameríku. Þýskaland er sem fyrr mikilvægasta útflutningslandið. Þangað fóru 1.477 hross, liðlega 500 hrossum fleira en á síðasta ári. Veruleg fjölgun er einnig til Norðurlandanna; Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands.

Kristbjörg Eyvindsdóttir, útflytjandi hjá Gunnari Arnarsyni ehf., segir að margar skýringar kunni að vera á aukningu í útflutningi. Þörf hafi verið að myndast á markaðnum. Verið sé að kaupa allt frá folöldum til stólpa gæðinga. Mest fari þó af þægum útreiðahrossum. Hún segir að Evrópubúar ferðist minna vegna kórónuveirufaraldursins og veltir því fyrir sér hvort fleiri þeirra noti í staðinn frítíma sinn og fjármuni í tómstundir eins og útreiðar og samvistir við dýr.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert