Ríkið bótaskylt vegna saknæmrar háttsemi dómara

Málið snýr að kyrrsetningu á vél WOW air sem félagið …
Málið snýr að kyrrsetningu á vél WOW air sem félagið hafði á leigu frá ALC. mbl.is/Hari

Í gær dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur íslenska ríkið og flugvélaleiguna ALC til þess að greiða Isavia 2,5 milljarða króna en í dómnum segir að dómari við Héraðsdóm Reykjaness hafi komist að rangri niðurstöðu í fyrra máli með saknæmum hætti.  

Málið snýr að deilum milli Isavia og ALC vegna kyrrsetningar Isavia á Airbus-þotu gegn skuldum flugfélagsins WOW air. En Isavia ákvað að kyrrsetja vélina og neitaði að leyfa henni að fljúga brott af landi nema ALC greiddi allar skuldir WOW sem námu um tveimur milljörðum króna.

ALC neitaði því að greiða skuldir WOW og vegna þess að þeir töldu sig ekki ábyrga fyrir skuldum WOW. Fór deilan í gegnum öll þrjú dómstigin, Héraðsdóm, Landsrétt og Hæstarétt fyrir rúmum tveimur árum.

Þotunni flogið strax úr landi

Niðurstaða Héraðsdóms Reykjaness sem féll sumarið 2019 gerði Isavia að afhenda ALC þotuna en ALC var þó gert að greiða þær skuldir sem lágu á vélinni sjálfri. Ástríður Grímsdóttir, héraðsdómarinn í málinu, taldi þá ekki ástæðu til þess að fresta réttaráhrifum úrskurðarins og því var hægt að fljúga þotunni úr landi.

Isavia taldi dómarann hafa, með þessari ákvörðun sinni, svipt félagið tryggingu fyrir tveggja milljarða skuld og höfðaði Isavia því skaðabótamál á hendur íslenska ríkinu og flugvélaleigunni ALC.

Í gær komst svo Björn Þorvaldsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, að þeirri niðurstöðu að dómurinn sem féll í héraði sumarið 2019, hafi verið rangur. Litið hafi verið fram hjá rökstuðningi í úrskurði Landsréttar í sama máli og haldið sig fremur við túlkun á ákvæði sem fór í berhögg við túlkun Landsréttar.

Háttsemi dómarans talin saknæm

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að þessa háttsemi verði að meta dómaranum, Ástríði Grímsdóttur, til sakar. Hún hafi komist að rangri niðurstöðu með saknæmum hætti og sýnt af sér saknæma háttsemi vegna þess að hún féllst ekki á kröfu um að málskot myndi fresta aðfarargerð, eða því að vélin gæti flogið úr landi, á grundvelli áðurnefnds úrskurðar Landsréttar. 

Var það niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í gær að Isavia hafi orðið fyrir tjóni vegna þessa og íslenska ríkið sem og ALC beri á því ábyrgð. Eins og áður segir voru áðurnefndir aðilar því dæmdir til þess að greiða Isavia um 2,5 milljarða króna. Allur málskonstaður greiðist þá úr ríkissjóði en hann nemur um 15 milljónum.

Héraðsdómarinn Björn Þorláksson, við Héraðsdóm Reykajvíkur, komst að þeirri niðurstöðu …
Héraðsdómarinn Björn Þorláksson, við Héraðsdóm Reykajvíkur, komst að þeirri niðurstöðu í gær að niðurstaða Ástríðar Grímsdóttur, héraðsdómara við Héraðsdóm Reykjaness, hafi verið röng og að háttsemi hennar væri saknæm. Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert