Strætó mun hefja ferðir í Gufunesþorp 2. janúar næstkomandi en borgarstjórn samþykkti á fundi sínum 7. desember sl. aukin framlög vegna strætósamgangna í Gufunesi.
Til að byrja með verða strætósamgöngur úr Gufunesi í formi pöntunarþjónustu, að því er fram kemur í frétt á heimasíðu Reykjavíkurborgar. Komið verður upp merktri biðstöð hjá Gufunesþorpi en þar bíður farþegi eftir leigubíl sem kemur þeim á næstu skiptistöð Strætó, líkast til verður það skiptistöðin í Ártúni. Panta þarf bílinn a.m.k. 30 mínútum fyrir áætlaða brottför. Farþeginn hringir í Hreyfil og sýnir bílstjóra Strætóappið eða Klappkortið sitt til að staðfesta greiðslu fyrir ferðina.
Á fyrrnefndum fundi borgarstjórnar var samþykkt tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna vegna bættra almenningssamgangna. Lagt var til að fjárheimildir til framlaga Strætó bs. verði hækkaðar um 14,6 milljónir til að auka almenningssamgöngur í Gufunesi.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sátu hjá við afgreiðslu málsins.