Tilkynningum um heimilisofbeldi fjölgaði

Skráð voru 677 hegningarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu í nóvember og fækkaði þessum brotum töluvert á milli mánaða. Á sama tíma fjölgaði tilkynningum um heimilisofbeldi. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir nóvember síðastliðinn.

Um 10% fleiri tilkynningar um heimilisofbeldi

Tilkynningum um þjófnaði fækkaði á milli mánaða sem og tilkynningar um innbrot. Það sem af er ári hafa borist um 8% færri tilkynningar um innbrot en bárust að meðaltali á sama tímabili sl. þrjú ár á undan. Skráðir þjófnaðir fækkuðu úr 399 í október 2021 í 257 í nóvember sama ár og innbrot úr 84 í 60.

Alls bárust 119 tilkynningar um ofbeldisbrot í nóvember og fækkaði þessum tilkynningum á milli mánaða. Tilkynningum um heimilisofbeldi fjölgaði á milli mánaða og fóru úr 58 tilkynningum í október upp í 64 tilkynningar í nóvember. Það sem af er ári hafa borist um 10% fleiri tilkynningar samanborið við meðalfjölda sama tímabils síðustu þrjú ár á undan. 121 brot voru skráð í flokknum Manndráp og líkamsmeiðingar í október 2021 og fækkaði brotum í þeim flokki niður í 119 í nóvember sama ár. Alls voru sjö brot skráð er varða ofbeldi gagnvart lögreglumanni í október og var fjöldi þeirra brota jafn mikill í nóvember. Þá fækkaði kynferðisbrotum úr 30 í október niður í 25 í nóvember.

Alls bárust 119 tilkynningar um ofbeldisbrot í nóvember og fækkaði þessum tilkynningum á milli mánaða. Tilkynningum um heimilisofbeldi fjölgaði á milli mánaða og fóru úr 58 tilkynningum í október upp í 64 tilkynningar í nóvember. Það sem af er ári hafa borist um 10% fleiri tilkynningar samanborið við meðalfjölda tímabils síðustu þrjú ár á undan en 634 tilkynningar bárust um heimilisofbeldi árið 2018 samanborið við 745 tilkynningar það sem af er árinu 2021.

Færri beiðnir um leit að börnum og ungmennum

Alls bárust níu beiðnir um leit að börnum og ungmennum í nóvember og sem er fækkun um tvo síðan í október en þá bárust 11 beiðnir um leit að börnum og ungmennum.

Tilkynningum um eignaspjöll fækkaði töluvert á milli mánaða eða úr 157 í október niður í 100 í nóvember á meðan tilkynningum um nytjastuld á vélknúnum ökutækjum fjölgaði lítillega eða úr 13 í 15.

Skráðum fíkniefnabrotum fækkaði úr 78 í október niður í 50 í nóvember. Tvö þeirra brota sem skráð voru í nóvember voru stórfelld fíkniefnabrot. Tilkynningum þar sem ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna fækkaði á milli mánaða sem og tilkynningum þar sem ökumaður var grunaður um ölvun við akstur.

Skráðum hegningarlagabrotum fjölgað milli ára

Tara Sif Khan, sérfræðingur í upplýsinga- og áætlanadeild lögreglunnar, segir erfitt að svara því hvers vegna þróunin hafi verið eins og hún var milli síðastliðinna tveggja mánaða þar sem horfa þurfi á heildarþróun brotanna frekar en einn og einn mánuð.

Ástæðan fyrir þessu er að fjöldi hegningarlagabrota á mánaðar grundvelli er mjög sveiflukenndur og hefur síðustu ár verið allt frá u.þ.b. 630 brotum einn mánuð upp í rúmlega 1.000 brot annan mánuð.

Sé staðan skoðuð eins og hún var í síðustu mánaðarskýrslu megi sjá að fleiri hegningarlagabrot hafi verið skráð árið 2021 heldur en síðustu þrjú ár á undan og nemi sú fjölgun rúmum þremur prósentum, að sögn Töru.

„Þannig að þó svo að töluverð fækkun hafi verið í nóvember voru almennt fleiri hegningarlagabrot skráð árið 2021 heldur en síðustu þrjú ár á undan,“ segir hún.

Því þurfi lögreglan að fara mjög varlega í að setja fram kenningar byggðar á gögnum fyrir einn mánuð. Skoða þurfi frear heildar myndina þegar árið liggur fyrir. Mánaðarskýrsla desembermánaðar komi út um miðjan janúar og þá sé hægt að skoða allt árið 2021 og hvernig þróunin hafi verið í hverjum brotaflokki fyrir sig.

Varðandi heimilisofbeldin segir Tara fjölgunina í þeim brotaflokki vera innan útreiknaðra marka fyrir síðustu sex og síðustu tólf mánuði á undan.

„Miðað við þróunina árið 2021 þá sýnist mér þetta vera í takt við sveiflurnar sem við höfum verið að sjá árið 2021.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert