Tveir lausir hundar drápu kött

Tveir kátir hundar. Myndin tengist ekki efni fréttarinnar beint.
Tveir kátir hundar. Myndin tengist ekki efni fréttarinnar beint. Morgunblaðið/Atli Vigfússon

Tveir lausir hundar drápu kött á Laugarnesinu í dag og var lögregla kölluð til að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að hundaeftirlitið hafi verið kallað til, sem hafi tekið hundana til sín og málinu sé lokið að hálfu lögreglu. 

„Hundaeftirlit Reykjavíkurborgar er með framhald málsins. Lausaganga hunda er bönnuð en mögulegar afleiðingar verða leystar hjá hundaeftirlitinu. Það verður þá kært til okkar ef tilefni er til,“ segir Jóhann Karl. 

Hann segist ekki vita að hvaða tegund hundarnir voru, en í bókun hafi staðið að hundarnir væru brúnir. Spurður hvort svona tilvik séu algeng segir Jóhann Karl ekki svo vera en segist muna eftir slíkum tilvikum í gegnum tíðina. 

Þá var atvikið rætt á Twitter, þar sem ung kona lýsir atvikinu og segir eiganda hundanna hafa brotið reglur um lausagöngu þeirra áður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert