Um 200 manns fá jólamáltíð hjá Samhjálp

Samhjálp gefur um 200 jólamáltíðir á dag yfir hátíðirnar.
Samhjálp gefur um 200 jólamáltíðir á dag yfir hátíðirnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Valdi­mar Þór Svavars­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­hjálp­ar, seg­ir í sam­tali við mbl.is að svipaður fjöldi sæki í jóla­mat­inn til Sam­hjálp­ar þrátt fyr­ir að Hjálp­ræðis­her­inn í Reykja­vík haf­i af­lýst jóla­boði sínu á aðfanga­dag vegna fjölda Covid-19-smita í sam­fé­lag­inu.

„Þetta er ekki endi­lega al­veg sami hóp­ur­inn. Við höf­um haldið okk­ar striki og haft opið hvern ein­asta dag og mun­um áfram gera það,“ seg­ir Valdi­mar og bæt­ir við að Sam­hjálp taki á móti fólki sem þurfi virki­lega á aðstoðinni að halda.

Valdimar Þór Svavarsson, framkvæmdastjór Samhjálpar.
Valdi­mar Þór Svavars­son, fram­kvæmda­stjór Sam­hjálp­ar. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

„Við reyn­um allt til að hafa opn­ar dyr og það verður þannig um jól­in.“ Hann seg­ir að Sam­hjálp hafi fengið und­anþágu til þess að leyfa 50 manns í sæti, sem sé sá fjöldi sem kom­ist fyr­ir á kaffi­stof­unni.

Gera vel við fólkið

Í boði verður jóla­máltíð á aðfanga­dag, jóla­dag og ann­an í jól­um þar sem bú­ist er við um 200 manns á dag en opið er frá klukk­an 11 til 14.

„Við mun­um gera vel við fólkið, bjóða upp á dýr­ind­is kjöt, meðlæti, ís í eft­ir­rétt og allt hvað eina.“

Valdi­mar seg­ir þörf­ina svipaða og hún hef­ur verið. „Það koma stund­um ein­hverj­ar sveifl­ur og við höf­um al­veg orðið var við það í far­aldr­in­um að sam­setn­ing­in á hópn­um hef­ur aðeins breyst,“ seg­ir hann og bæt­ir við að um tíma hafi meira verið um eldra fólk.

Átakið „gefðu jóla­máltíð“

Valdi­mar nefn­ir að kaffi­stof­an þjóni margþættu hlut­verki. „Það er verið að gefa heit­an mat á hverj­um degi en hún er ekki síst fé­lags­legt at­hvarf. Það eru mjög marg­ir sem koma sem hitta jafn­vel eng­an ann­an en á kaffi­stof­unni. Það hef­ur sann­ar­lega ekki minnkað í Covid.“

Valdi­mar bend­ir á að Sam­hjálp standi nú fyr­ir átak­inu „gefðu jóla­máltíð“, þar sem fólk geti gefið jóla­máltíð hjá Sam­hjálp. 

„Fólk hef­ur tekið mjög vel í það og geng­ur vel að safna fyr­ir máltíðum,“ seg­ir hann.

„Við erum bara glöð og höld­um hátíðleg jól og ger­um okk­ar besta til þess að fólk fái að upp­lifa þetta þótt það sé ekki nema í smá stund.“

Fólk sem vill gefa jóla­máltíð get­ur gert það hér

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert