Um 200 manns fá jólamáltíð hjá Samhjálp

Samhjálp gefur um 200 jólamáltíðir á dag yfir hátíðirnar.
Samhjálp gefur um 200 jólamáltíðir á dag yfir hátíðirnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Valdimar Þór Svavarsson, framkvæmdastjóri Samhjálpar, segir í samtali við mbl.is að svipaður fjöldi sæki í jólamatinn til Samhjálpar þrátt fyrir að Hjálp­ræðis­her­inn í Reykja­vík haf­i af­lýst jóla­boði sínu á aðfanga­dag vegna fjölda Covid-19-smita í sam­fé­lag­inu.

„Þetta er ekki endilega alveg sami hópurinn. Við höfum haldið okkar striki og haft opið hvern einasta dag og munum áfram gera það,“ segir Valdimar og bætir við að Samhjálp taki á móti fólki sem þurfi virkilega á aðstoðinni að halda.

Valdimar Þór Svavarsson, framkvæmdastjór Samhjálpar.
Valdimar Þór Svavarsson, framkvæmdastjór Samhjálpar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við reynum allt til að hafa opnar dyr og það verður þannig um jólin.“ Hann segir að Samhjálp hafi fengið undanþágu til þess að leyfa 50 manns í sæti, sem sé sá fjöldi sem komist fyrir á kaffistofunni.

Gera vel við fólkið

Í boði verður jólamáltíð á aðfangadag, jóladag og annan í jólum þar sem búist er við um 200 manns á dag en opið er frá klukkan 11 til 14.

„Við munum gera vel við fólkið, bjóða upp á dýrindis kjöt, meðlæti, ís í eftirrétt og allt hvað eina.“

Valdimar segir þörfina svipaða og hún hefur verið. „Það koma stundum einhverjar sveiflur og við höfum alveg orðið var við það í faraldrinum að samsetningin á hópnum hefur aðeins breyst,“ segir hann og bætir við að um tíma hafi meira verið um eldra fólk.

Átakið „gefðu jólamáltíð“

Valdimar nefnir að kaffistofan þjóni margþættu hlutverki. „Það er verið að gefa heitan mat á hverjum degi en hún er ekki síst félagslegt athvarf. Það eru mjög margir sem koma sem hitta jafnvel engan annan en á kaffistofunni. Það hefur sannarlega ekki minnkað í Covid.“

Valdimar bendir á að Samhjálp standi nú fyrir átakinu „gefðu jólamáltíð“, þar sem fólk geti gefið jólamáltíð hjá Samhjálp. 

„Fólk hefur tekið mjög vel í það og gengur vel að safna fyrir máltíðum,“ segir hann.

„Við erum bara glöð og höldum hátíðleg jól og gerum okkar besta til þess að fólk fái að upplifa þetta þótt það sé ekki nema í smá stund.“

Fólk sem vill gefa jólamáltíð getur gert það hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert