Aðventan er sem lífið sjálft

mbl.is óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju …
mbl.is óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. mbl.is/Kristinn Magnússon

mbl.is ósk­ar lands­mönn­um gleðilegra jóla og far­sæls kom­andi árs og þakk­ar um leið sam­fylgd­ina á ár­inu sem er að líða. Í til­efni hátíðar­inn­ar skrif­ar Kjartan Örn Sigurbjörnsson, fyrrverandi sóknarprestur í Landakirkju í Vestmannaeyjum, jólahugvekju sem hér er birt.

Önnur jólin í röð býr heimsbyggðin öll við óvenjulega tíma. Sr. Kjartan gerir það að umtalsefni í hugvekju sinni og þræðir sálma og lagatexta í leit að sönnum tilgangi jólahátíðarinnar, aðventunnar og eftirvæntingarinnar.

Aðventan er sem lífið sjálft

Jólahátíðin er gengin í garð þrátt fyrir sóttvarnir og Covid. Auðvitað hamlar það hátíðarhöldum og hefur áhrif á samveru. En við fögnum boðskap jólanna og að núna fer daginn að lengja á ný. Ekkert fær breytt því. Sama hvað á dynur.

Við eigum öll okkar minningar frá jólum. En þær eru ólíkar og taka eðlilega mið af aldri og aðstæðum. Við eigum minningar frá því þegar við vorum börn og frá jólahaldi manndómsára þegar við erum orðin fullorðin. Og svo eru það minningarnar þegar líður á ævikvöldið og við fáum að njóta jóla með börnum og barnabörnum.

Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson.
Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson. Ljósmynd/Facebook

Þegar við vorum börn hlökkuðum við til jólanna og aðventan var tími eftirvæntingar og dagarnir voru stuttir en samt lengi að líða í huga barnsins. En loksins komu blessuð jólin. Margir hlustuðu á messuna í útvarpinu og fólk fór til kirkju. Þar las presturinn söguna um Maríu og Jósep og ferð þeirra frá Nazaret upp til Betlehem. Þar varð María léttari – fæddi sveinbarn – vafði reifum og lagði í jötu. Og presturinn stillti ræðunni í hóf af tillitssemi við blessuð börnin. En þess meira var sungið. Og allir gátu sungið með:

Það barn oss fæddi fátæk mær. Hann er þó dýrðar Drottinn skær. Og: Í myrkrum ljómar lífsins sól. Þér, Guð, sé lof fyrir gleðileg jól. Hallelúja. (Sálm 73). Og kórinn og söfnuðurinn sameinaðist í söngnum: Heims um ból helg eru jól.

Aðventan breytist þegar við erum fullorðin. Þá er meiri undirbúningur en eftirvænting – okkur finnst tíminn fljótur að líða – margt sem þarf að gera áður en jólin eru hringd inn. En mikið er inndælt að sjá jólin í augum barnanna og finna þá helgi og þann frið sem fylgir jólahátíðinni. Börnin sofna sæl og glöð – og Óli lokbrá færði þeim fallega drauma um að – bjart er yfir Betlehem og jólastjarnan er stjarnan mín og stjarnan þín – stjarnan allra barna. (Sálm. 80).

Og þegar aldurinn færist yfir þá verður aðventan dýrmætur og bjartur tími með ljósum, fallegri tónlist og góðum og gefandi samverustundum. Og við tökum á móti jólahátíðinni og við þökkum liðna tíð og góðar jólaminningar og við gleðjumst með þeim sem við elskum – því nóttin var svo ágæt ein – þegar fjármenn hrepptu fögnuð þann að þeir fundu bæði Guð og mann – og við syngjum með öllum jólabörnum á öllum aldri: friður á jörðu og fengin sátt, – fagni því menn sem bæri. (Sálm. 72)

Aðventunni er oft líkt við lífið sjálft. Við mætum því með eftirvæntingu og lífið er undirbúningur og það skiptir máli að gá að sér. Lífið er vissulega yndislegt en það getur líka verið erfitt og brothætt. Við gleymum því ekki að jólin eru erfiður tími fyrir marga.

Boðskapur jólanna um ást Guðs og ábyrgð mannsins á að hvetja okkur til þess að gleyma ekki okkar minnstu bræðrum og systrum. Hjálpum þeim og búum til betri heim – eins og segir í söngtexta eftir Jóhann G. Jóhannsson og Axel Einarsson. Við sem erum komin til manns munum öll eftir þessu lagi og textanum en þar segir meðal annars:

Kærleikurinn hinn mikli sjóður,
í hjarta hverju á sér stað.
Í von og trú er fólginn styrkur,
sem öllu myrkri getur eytt.
Í hverjum manni Jesús Kristur,
sem mannkyn getur leitt.

Að taka á móti jólunum er að koma að jötu hans með hvað eina sem á okkur hvílir. Vonir okkar og vonbrigði, gleði og sorg og leggja það í arma hans. Við gerum það í von og trú. Í því er fólginn styrkur og um leið hvatning til þess að hjálpa þeim sem þarfnast okkar. Gleðileg jól.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert