Byrjaði aðfangadag á djúpsteiktum sviðum

Tryggvi byrjar á því að sjóða svið, setur þau síðan …
Tryggvi byrjar á því að sjóða svið, setur þau síðan í hveiti og egg og djúpsteikir svo. Hann mælir með frönskum kartöflum með. Samsett mynd

Tryggvi Pétur Brynjarsson ákvað að byrja aðfangadag á því að gæða sér á djúpsteiktum sviðum en hann hefur lengi verið í tilraunastarfsemi við að djúpsteikja hefðbundinn íslenskan mat.

Tryggvi bjó í Bandaríkjunum í tíu ár en árið 2004 flutti hann til suðurríkja landsins, þar sem mikil hefð er fyrir því að djúpsteikja mat. Segist hann hafa gaman af því að blanda matarhefðum saman og djúpsteikinguna taki hann með sér frá árum sínum í Bandaríkjunum.

Ljósmynd/ Tryggvi Pétur Brynjarsson

„Ég hef oftast verið að djúpsteikja annan íslenskan mat eins og t.d. blóðmör, sett í síróp og steikt á pönnu og maður hefur eiginlega verið að leika sér voða mikið með þetta,“ segir Tryggvi.

Hann byrjar á því að sjóða sviðin, setur þau síðan í hveiti og egg og djúpsteikir. Hann mælir með því að bera herlegheitin fram með frönskum kartöflum. Tryggvi segir þó aðfangadagsmatinn hamborgarhrygg en gott sé að byrja daginn á djúpsteiktum sviðum.

Ljósmynd/ Tryggvi Pétur Brynjarsson
Ljósmynd/ Tryggvi Pétur Brynjarsson
Ljósmynd/ Tryggvi Pétur Brynjarsson

Kynnir systkinum sínum íslenskan mat

Afi Tryggva starfaði sem kokkur á sjó og þótt Tryggvi sé sjálfur ekki kokkur lærði hann af því að fylgjast með afa sínum elda. Þá hafi félagar hans í Bandaríkjunum flestir verið af mexíkóskum uppruna og hann hafi einnig tekið með sér matarmenningu frá þeim, meðal annars með því að setja íslenskt lambakjöt í tortilla-kökur.

„Svo hef ég eiginlega verið að herma eftir og kennt mér sjálfur,“ segir Tryggvi.

Tryggvi Pétur Brynjarsson hefur lengi verið í tilraunastarfsemi við að …
Tryggvi Pétur Brynjarsson hefur lengi verið í tilraunastarfsemi við að djúpsteikja hefðbundinn íslenskan mat. Ljósmynd/Aðsend

Systkini hans eru hálfbandarísk og ólust upp í suðurríkjunum. Tryggvi segir það því skemmtilegt að kynna þeim íslenskan mat með því að djúpsteikja hann.

„Þau reyna að forðast íslenskan mat yfirhöfuð þar sem þau eru alin upp erlendis en ég hef reynt að blanda þessu saman og gera eitthvað nýtt. Kynna þeim íslenskar hefðir,“ greinir hann frá.

„Mér finnst besta útgáfan vera að blanda saman til þess að kynna matinn fyrir fólki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert