Ekkert frí á jólunum hjá sýnatökuteyminu

Opið er í sýnatöku alla helgina, þó með óhefðbundnu sniði.
Opið er í sýnatöku alla helgina, þó með óhefðbundnu sniði. mbl.is/Árni Sæberg

Nóg er að gera hjá sýnatökuteyminu á Suðurlandsbraut á aðfangadag, líkt og aðra daga. Stefnt var að því að gefa starfsfólkinu frí á jóladag en vegna stöðunnar á faraldrinum gekk sú áætlun ekki eftir. Því verður opið yfir hátíðarhelgina, en þó skerðist þjónustutími örlítið.

Ingibjörg Salóme Steindórsdóttir, verkefnastjóri hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að nóg sé að gera á Suðurlandsbrautinni. Það sé í sjálfu sér ekkert furðulegt miðað við stöðuna á faraldrinum eins og er.

„Já það er nóg að gera hjá okkur. Við erum með opið milli átta og tólf í dag. Við vissum að það yrði mikið að gera svona milli níu og tíu. Langflestir vilja mæta snemma; þótt þeir eigi tíma bókaðan klukkan ellefu þá er fólk gjarnt á að mæta fyrr.“

Þetta er þó ekki nýtt af nálinni að hennar sögn. Mikil reynsla sé í starfsliðinu og því gengur þetta nokkuð fljótt fyrir sig. „Fólk fer nokkuð hratt í gegn, en jú þetta er ansi mikill fjöldi samt.“

Hátíðin heilsar

Spurð hvort starfsliðið á Suðurlandsbraut fái jólafrí segir hún: „Við ætluðum að reyna að gefa starfsfólkinu okkar frí á jóladag en það gekk ekki upp sökum stöðunnar á faraldrinum. Það er því opið á morgun milli tíu og tvö en þó verður bara boðið upp á PCR-próf fyrir þá sem eru að losna úr sóttkví eða með einkenni. Engin ferðasýni eða hraðpróf.“

Á sunnudaginn, annan í jólum, verður svo opið samkvæmt venju milli klukkan níu að morgni og til þrjú um eftirmiðdag.

Hún segir ekki ljóst hver hátturinn verði á sýnatökunni á nýársdag, eftir rétt rúma viku, en opið verði á gamlársdag með sama hætti og í dag. Milli tíu og tvö nánar tiltekið.

„Við metum svo bara stöðuna núna snemma í næstu viku og sjáum hvort fólk geti fengið frí á nýársdag eða ekki.“

Séð það svartara

Þrátt fyrir að finna vel fyrir áhrifum Ómíkron-afbrigðisins segir Ingibjörg, ótrúlegt en satt, ekki erfitt að manna vaktirnar. „Það er ótrúlegt hvað þetta starfsfólk er frábært. Alltaf til í að standa vaktina.“

Þótt verulegur fjöldi smita greinist nú daglega segir Ingibjörg ekki metfjölda sýna tekinn á hverjum degi. Áður hafi komið tímabil þar sem meira var að gera, til að mynda í upphafi bylgjunnar í haust, en þá voru mest um 4.600 PCR-sýni tekin daglega. Ingibjörg segir að um 3.000 PCR-sýni hafi verið tekin í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert