Þrátt fyrir að Hjálpræðisherinn í Reykjavík hafi aflýst sínu jólaboði hélt Samhjálp sínu striki. Undanþága frá gildandi takmörkunum gerði þeim kleift að taka á móti á annað hundrað manns í dag, þó í hollum.
Valdimar Þór Svavarsson, framkvæmdastjóri Samhjálpar, segir í samtali við mbl.is að allt hafi lukkast vel í jólaboði dagsins.
„Við vorum búin undir það að hleypa inn í hollum en við fengum undanþágu frá gildandi reglum fyrir daginn í dag og á morgun. Við gátum því haft fimmtíu manns í húsi hverju sinni og buðum upp á hamborgarhrygg, hangikjöt, síld, ís í eftirrétt og allt meðfylgjandi.“
Valdimar segist skilja að aflýsa þurfi ýmsu vegna takmarkana en eðli starfseminnar hjá Samhjálp sé þess eðlis að ákveðið hafi verið að halda settu striki.
„Þetta er starfsemi sem er opin alla daga, allan ársins hring, alltaf. Til okkar kemur fólk sem oft er heimilislaust og glímir við mjög erfiðar aðstæður í lífinu. Maður getur sagt í raun; því miður er þetta fastur liður hjá sumum, en þetta gekk allt afskaplega vel.“
Eins og áður segir mættu á annað hundrað manns í jólaboð Samhjálpar í dag. Að jafnaði eru gefnir um 200 skammtar yfir daginn og segir Valdimar suma koma jafnvel tvisvar, en það „er í góðu lagi“.
Spurður hvort alltaf sé nóg til bendir Valdimar á þá staðreynd að kaffistofa Samhjálpar hefur verið rekin í um 40 ár og því komin ágætis reynsla á það hve mikið þarf að vera til.
Blessunarlega sé fullt af fólki sem færi Samhjálp mat um hátíðirnar, bæði einstaklingar og fyrirtæki. Einnig sé leitað eftir styrkjum en Samhjálp er rekin á sjálfsaflafé auk styrks frá Reykjavíkurborg.
Þá er hægt að styrkja söfnun Samhjálpar fyrir jólamáltíðum hér.