„Hangikjöt, grænar baunir og malt og appelsín er vinsælast núna. Íslendingarnir verða að fá það fyrir jólin,“ sagði Marteinn Hendriksson frá Flateyri sem á verslunina Icefood við Ørestads Boulevard í Kaupmannahöfn, ásamt eiginkonu sinni Mörnu Olsen frá Færeyjum og syni þeirra, Óla Marteinssyni. Marna og Óli sjá um daglegan rekstur.
Búðin er á milli verslanamiðstöðvanna Fields og Bella Center sem margir kannast við. Þar geta Íslendingar, Færeyingar og Grænlendingar sem sakna bragðsins að heiman fengið ýmislegt sem gleður bragðlaukana.
Marteinn sagði að Færeyingar séu ekki jafn fastheldnir á jólamat og Íslendingar. Íslendingarnir verði að fá hangikjöt með blöndu af maltöli og appelsíni á jóladag. Eins selja þau bæði steikt og ósteikt laufabrauð og grænu baunirnar frá ORA. Nú fyrir jólin seldu þau 7-8 þúsund dósir af malti og appelsíni og á Þorláksmessu var beðið eftir enn einu brettinu svo Íslendingar á danskri grund gætu fengið jóladrykkinn ómissandi. Færeyingar fá sér til hátíðabrigða allan ársins hring rastkjöt, það er sigið lambakjöt, og skerpukjöt sem er vindþurrkað lamb. Verslunin er í samstarfi við Færeying sem útvegar þessar kræsingar.
„Búðin er ekki nema 60-70 fermetrar en við erum með um 750 vörunúmer. Við erum með mikið af íslensku sælgæti, fisk, lambakjöt og margt fleira sem fólk þekkir og saknar að heiman,“ sagði Marteinn. Fyrir Þorláksmessu var hægt að fá kæsta tindabikkju og saltaða og kæsta skötu. Daginn fyrir Þorláksmessu var eftir einn pakki af hnoðmör en hamsatólgin var uppseld. Enn var hægt að fá færeyskan garnamör sem er eins og bragðmikill hnoðmör.