Fjöldatakmarkanir vegna sóttvarna ráða því hversu margir verða í guðsþjónustum í Hallgrímskirkju í Reykjavík nú um hátíðarnar. Aðeins 400 manns komast á aðfangadag og jóladag í messurnar, sem verður streymt bæði á heimasíðu kirkjunnar á hallgrimskirkja.is og mbl.is.
Á aðfangadag verður hægt að fylgjast með aftansöng klukkan 18 og guðsþjónustu á jólanótt klukkan 23.30. Einnig verður streymt frá hátíðarguðsþjónustu á jóladag kl. 14.
Um tvö þúsund manns sækja Hallgrímskirkju að jafnaði fyrstu jóladagana ár hvert. Vegna sóttvarna þarf að takmarka þennan fjölda, en í streyminu geta allir verið með í messunum óháð staðsetningu.
Á aðfangadag, í aftansöng og miðnæturmessu, auk hátíðarmessu á jóladag, þarf að framvísa neikvæðu hraðprófi við innganginn í Hallgrímskirkju og rúmast þá 400 manns í kirkjunni miðað við sóttvarnareglur, 200 í hvoru hólfi. Í fjölskylduguðsþjónustu klukkan 14 á öðrum degi jóla geta 100 manns verið í kirkjunni en þá er ekki krafist hraðprófs. – Messuhald um jólin verður víða með líku lagi og nú er í Hallgrímskirku. Helgihaldi er streymt yfir netið enda eru kirkjurnar aðeins opnar fáum.