Reykjavíkurborg hefur tekið á leigu 1. hæðina í Ármúla 6 fyrir leikskóla. Í húsinu hefur verið rekið skrifstofusetur.
Borgarráð samþykkti á síðasta fundi sínum leigusamning við Regin atvinnuhúsnæði ehf. Samkvæmt honum skal leigusali afhenda Reykjavíkurborg fullbúið leikskólahúsnæði án lauss búnaðar vorið 2022. Um er að ræða leigu á 766,7 fermetra húsnæði á 1. hæð í Ármúla 6. Leigutími er til 15 ára frá afhendingu húsnæðisins. Leigugjaldið er 3.058.734 kr. á mánuði.
Fram kemur í greinargerð að skortur sé á leikskólaplássum í hverfinu og með þessu úrræði verði hægt að bregðast við og fjölga leikskólaplássum um 60 með þremur deildum. Gert er ráð fyrir að leikskólarýmið verði rekið með leikskólanum Múlaborg, sem er í húsnæði aftan við Ármúla 4-6. Reykjavíkurborg sér um að tengja lóðir saman og ganga frá leiktækjum og lóð.
Í september sl. samþykkti Reykjavíkurborg samning við Regin um leigu á 1.600 fermetra húsnæði í Ármúla 4 fyrir Barnavernd Reykjavíkur. Barnaverndin hefur sprengt utan af sér húsnæðið í Borgartúni 12-14. Því til viðbótar hefur aðstaðan þar verið óboðleg samkvæmt lýsingum. Leigusamningurinn er til 15 ára og er leigugjaldið 4.623.133 krónur á mánuði.
Í frétt frá Reykjavíkurborg kemur fram að í janúar verði opnaðar nýjar deildir við leikskólana Gullborg í Vesturbæ og Funaborg í Grafarvogi. Við þessa stækkun fjölgar um 27 pláss í Gullborg og 24 í nýju húsi við Funaborg.
Þá kemur fram að fyrstu tveir leikskólar Ævintýraborga eru komnir til landsins og unnið er að uppsetningu þeirra, jarðvegsvinnu og framkvæmdum á lóðum. Innritun barna hófst fyrir nokkru og liggja nýjar áætlanir um tímasetningar opnunar nú fyrir.
Ævintýraborgir eru leikskólar í færanlegu húsnæði sem hæfa vel nútímaleikskólastarfi og mæta kröfum um góðan aðbúnað barna og starfsfólks, segir í fréttinni. Til stendur að setja upp fjóra slíka skóla í borginni. Munu þeir alls hýsa 340 börn og mæta brýnni þörf fyrir ný leikskólapláss í Reykjavík. Þrír þeirra munu taka á móti börnum frá 12 mánaða aldri til sex ára en einn þeirra, við Vörðuskóla, mun taka við börnum frá 12 mánaða aldri til þriggja ára.
Á Ævintýraborg við Eggertsgötu er nú unnið að frágangi utan- og innanhúss. Þar er stefnt að því að leikskólinn verði opnaður í byrjun febrúar. Á Ævintýraborg við Nauthólsveg er búið að samþykkja byggingarleyfisumsókn og áætlað að hefja vinnu á svæðinu á þessu ári. Þar er nú stefnt að því að opna skólann í lok mars eða nokkrum vikum síðar en áætlað var.
Ævintýraborgir í Vogabyggð og við Vörðuskóla eru í undirbúningi og er stefnt að opnun þeirra á vormánuðum komandi árs.
Leikskólastjórar Ævintýraborganna eru í góðum samskiptum við foreldra og forráðamenn barna sem hafa fengið úthlutuð pláss og halda þeim vel upplýstum, segir í frétt borgarinnar.
Öll þessi verkefni tengjast aðgerðaáætluninni Brúum bilið sem borgarstjórn samþykkti í nóvember 2018 en hún miðar að því að fjölga leikskólaplássum svo bjóða megi börnum leikskólapláss allt frá 12 mánaða aldri fyrir lok árs 2023.