Einn Íslendingur stóð í Tómasarkirkju í Leipzig á föstudaginn langa vorið 2020 og söng Jóhannesarpassíu Bachs, nokkuð sem hefð er fyrir að stór kór, hópur einsöngvara og hljómsveit flytji. Þetta var ótrúleg stund, stund sem streymt var heim í stofu hjá fólki um allan heim og vakti mikla hrifningu á annars nokkuð óhugnanlegum óvissutímum.
Covid-faraldurinn var kominn til að vera og í samkomubanni var leitað til þessa Íslendings, söngvarans Benediks Kristjánssonar, og tveggja samstarfsfélaga hans sem höfðu útsett verkið fyrir einn söngvara og tvo hljóðfæraleikara. Þessa útgáfu höfðu þeir flutt nokkrum sinnum áður með aðstoð frá áhorfendum, sem margir hverjir voru komnir til þess að fá tækifæri til að syngja með í þessu verki.
Með þessum flutningi var rofin 150 ára hefð fyrir því að Jóhannesarpassían sé flutt á föstudaginn langa af drengjakór Tómasarkirkju sem var stofnaður árið 1212. Aðeins einu sinni áður á þessum 150 árum hefur verið brugðið út af vananum, það var í síðari heimsstyrjöldinni þegar kórinn flutti passíuna annars staðar í borginni, í felum fyrir sprengjuregni.
Benedikt var gestur í Dagmálum og sagði frá þessu Jóhannesarpassíuævintýri ásamt því að hann rak það hvernig leiðin lá frá Grenjaðarstað í Aðaldal, í Menntaskólann í Hamrahlíð, yfir í óperuheiminn í Berlín og svo loks heim til Íslands á ný, á Akranes nánar tiltekið.