Davíð Ágúst Guðmundsson, skipstjóri á danska gámaflutningaskipinu Mette Maersk, er á lengri siglingu um heimsins höf en venjulega vegna áhrifa kórónuveirunnar. Venjulega siglir hann í um 11 vikur í senn en núna verða þetta um fjórir mánuðir.
„Maður verður bara að lifa með þessu. Það þýðir ekkert að æsa sig, svona er þetta bara,“ segir Davíð Ágúst, sem hefur starfað hjá Maersk í 30 ár, þar af sem skipstjóri síðustu 25 árin. Allan þennan tíma hefur hann verið búsettur í Danmörku.
Skipið er engin smásmíði, eða 400 metra langt og 59 metra breitt, og er eitt það stærsta sinnar tegundar í Danmörku. Samanlagt getur það flutt 18 þúsund 20 feta gáma en það var smíðað í Suður-Kóreu árið 2015. Til samanburðar hafa íslensk gámaflutningaskip verið að flytja í kringum 1.000 til 1.200 gáma.
Þegar blaðamaður sló á þráðinn til Davíðs lá skipið við bryggju í Bremerhaven í Þýskalandi. Förinni var næst heitið til Wilhelmshaven, skammt frá í Þýskalandi, og í dag, aðfangadag, átti skipið að sigla til Marokkós. Að því loknu skal siglt í gegnum Súez-skurðinn yfir til Malasíu, síðan til Kína og Suður-Kóreu. Skipið leggst ekki aftur við bryggju í Bremerhaven fyrr en um miðjan mars.
Hvernig er að vera skipstjóri á svona stóru skipi, er það gaman?
„Ég veit ekki hvort það er gaman eða leiðinlegt. Þetta er hluti af mér. Ef mér fyndist þetta agalega leiðinlegt og þetta væri eitthvað til að halda út þá væri ég fyrir löngu hættur. Þetta er dálítið sem maður venst ... jæja maður venst þessu kannski ekki en það er eiginlega alltaf eitthvað nýtt að ske á hverjum degi,“ svarar Davíð og segir vinnudaginn langan hjá flestum um borð í skipi sem þessu.
Spurður út í álagið segir hann það töluvert fyrir suma en meira eins og vana fyrir hann eftir öll þessi ár. Sumt getur tekið á, til dæmis að sigla í gegnum Súez-skurðinn því þegar hann er kominn þangað í gegn er hann venjulega orðinn dauðþreyttur.
„Það er mikið sem maður þarf að fylgjast með þegar maður fer í gegn. Skurðurinn er ekki svo breiður og skipið er breitt, þannig að það er ekki svo mikið pláss. Það má ekkert bregða út af,“ greinir hann frá.
Skemmst er að minnast þess þegar skurðurinn lokaðist fyrr á árinu í langan tíma eftir að flutningaskipið Ever Given strandaði þar. Davíð segir skurðinn lokast oft en venjulega ekki meira en hálfan dag í senn. Það vildi þó svo heppilega til að Mette Maersk sigldi þangað í gegn tveimur dögum fyrr á leiðinni í austurátt og slapp því við öll vandræðin.
Venjulega eru um 25 manns í áhöfn skipsins, flestir frá Filippseyjum og Indlandi. Núna eru sex Danir um borð, ef Davíð sjálfur er meðtalinn. Það telst mikið því erfitt mun vera að manna danska skipaflotann með Dönum sökum stærðar hans. Þegar skipið siglir frá Evrópu lestar það til dæmis í Árósum 1.000 til 1.200 frystigáma með kjöti og fiski frá Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Íslandi sem siglt er með til Kína.
Davíð Ágúst byrjaði sem messagutti hjá Sambandinu svokallaða [Sambandi íslenskra samvinnufélaga] árið 1967 þegar hann var aðeins 14 ára. Hann segist hafa byrjað svona ungur vegna rómantíkurinnar sem hann sá í sjómennskunni.
Hann starfaði sem sendisveinn hjá Sambandinu eftir skóla, sá þar skipin niðri við höfnina og dreymdi um að sigla um heimsins höf. Eftir að hafa starfað sem sjómaður á íslenskum skipum fór hann í Stýrimannaskólann í Reykjavík og að honum loknum árið 1977 var förinni heitið til Danmerkur. Þar átti að stoppa við í eitt til eitt og hálft ár og snúa svo aftur heim til siglinga fyrir Sambandið en núna, yfir fjórum áratugum síðar, er Davíð enn búsettur í Danmörku.
Fyrst um sinn sigldi hann hjá nokkrum dönskum skipafélögum en byrjaði svo hjá Mette Maersk árið 1990. Þar segist hann hafa gert marga skemmtilega hluti og bæði siglt undir flaggi Danmerkur en einnig flaggi Singapúr og Marshalleyja. Frá 2006 hefur hann síðan siglt undir dönsku flaggi.
Beðinn um að nefna það sem staðið hefur upp úr á löngum ferli segir hann ýmislegt gott og annað miður gott hafa gerst. Ef horft er yfir síðustu 25 árin sem skipstjóri segir hann hlutina hafa gengið ágætlega. „Sem skipstjóri þá er maður hérna til að hlutirnir gangi snurðulaust og það sé ekkert að.“
Er ekkert erfitt að hafa stjórn á öllum þessum gámum?
Davíð hlær og segist hafa gott fólk í kringum sig sem sjái um að allt sé bundið vel niður. Hann nefnir að ekkert þýði fyrir stór skip á borð við Mette Maersk að sigla í vonskuveðri og því þurfi hann að halda sig sem mest í burtu frá því. „Ég get alveg sagt þér að öll skip eru pínulítil úti á sjó, alveg sama hvað þau eru stór, og ég er búinn að vera á öllum stærðum,“ segir hann og hlær aftur dátt.
Spurður segist hann aldrei hafa misst gám fyrir borð á löngum ferli sínum og lítur á það sem mikla heppni.
Spurður út í jólahald um borð í gámaflutningaskipinu stóra segir hann ágætt að vera úti á sjó á jólunum og í raun ósköp rólegt. Sjómannakirkjur í borginni Rotterdam í Hollandi kaupa fyrir skipið jólagjafir sem er dreift til skipverja og eru þær settar undir jólatréð á aðfangadagskvöld. Einnig hafa sjómannakirkjur í Danmörku og í Bremerhaven í Þýskalandi komið með gjafir. Að sjálfsögðu er boðið upp á góðan mat en annars gengur lífið sinn vanagang á skipinu og fólk er á sínum vöktum.
„Kannski hlær fólk aðeins meira og það er aðeins kátara,“ segir hann um aðfangadag. Einnig hringja margir í fjölskyldur sínar og óska þeim gleðilegra jóla.
Beðinn að nefna sérstaklega hvað er í matinn segir hann að ef veðrið er gott sé borðað úti. Filippseyingarnir um borð eru hrifnir af heilsteiktum grís, sem tekur um hálfan dag að elda, en einnig hefur verið boðið upp á nautalundir, pylsur, salat og ýmislegt fleira. Ekkert áfengi er aftur á móti leyfilegt um borð og er skipið því „algjörlega þurrt“, að sögn Davíðs.
Davíð er orðinn 68 ára en segist enn fær í flestan sjó og er ekkert á þeim buxunum að setjast í helgan stein alveg strax. Hann kveðst nýverið hafa íhugað að hætta en fundist það of snemmt. „Ég er ekki orðinn þreyttur á þessu og heilsan er ágæt. Ég tek einn túr í einu. Ef það kemur sá dagur að ég vil ekki meira þá vil ég bara ekki meira,“ segir Davíð og bætir við að fái hann sjálfur að ráða muni hann halda áfram á skipinu næstu þrjú til fjögur árin áður en hann leggur skipstjórahúfuna á hilluna.
Davíð, sem er fráskilinn, segir flutning heim til Íslands ekki inni í myndinni, enda þekkir hann fáa hér á landi fyrir utan bræður sína, systur sína og félaga sem hann var með á sjónum í gamla daga. Nefnir hann sérstaklega tvo sem hann var með á sjónum árið 1967, þá Heiðar Kristinsson og Sverri Hannesson.
Greinilegt er að Davíð minnist gömlu áranna með hlýhug þegar rómantíkin í kringum sjómennskuna átti hug hans allan og allt leit út fyrir framtíð hjá Sambandinu áður en Danmörk kom inn í myndina. Síðan þá hefur hann siglt ár eftir ár um heimsins höf, rétt eins og hann dreymdi um í upphafi, og verið skipstjóri á risastóru gámaflutningaskipi. Þannig fór um sjóferð þá, ef svo má að orði komast.