Afskipti voru höfð af veitingastað í miðbæ Reykjavíkur klukkan hálftólf á Þorláksmessukvöld vegna brota á sóttvarnalögum. 18 gestir voru inni á staðnum með drykk í hendi en samkvæmt reglum áttu allir að vera farnir út klukkan 22.
Ekkert meira kemur fram um málið í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Um hálfeittleytið í nótt var maður í annarlegu ástandi handtekinn í Vesturbænum. Hann er grunaður um brot á sóttvarnalögum, fara ekki að fyrirmælum lögreglu og ofbeldi gegn opinberum starfsmanni. Hann var vistaður í fangageymslu lögreglu.
Tilkynnt var um umferðaróhapp í Árbænum laust fyrir klukkan 18 í gærkvöldi. Ekið hafði verið aftan á bifreið. Sá sem olli tjóninu stoppaði ekki og reyndi að stinga af en sá sem varð fyrir tjóninu elti og sá hvar ökumaðurinn og farþegar yfirgáfu bifreiðina og fóru inn í hús.
Þegar lögreglan kom á vettvang fundust hvorki ökumaður né farþegar.
Bifreið þess sem olli tjóninu reyndist vera ótryggð og voru skráningarnúmer fjarlægð. Sá sem ók bílnum sem ekið var á fann til eymsla í baki og öxlum og ætlaði að leita sér læknisaðstoðar. Málið er í rannsókn.
35 bifreiðar stöðvaðar á Skólavörðuholti um kvöldmatarleytið þar sem athuguð voru réttindi og ástand ökumanna. Tveir ökumenn sýndu jákvæða svörun við áfengisneyslu, annar undir refsimörkum, og var honum gert að hætta akstri en hinn var kærður fyrir ölvun við akstur.
Bifreið var stöðvuð í Breiðholti á miðnætti. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna, skjalafals og ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum.