Stöðugt streymi í kirkjugarðana frá sjö í morgun

Úr Fossvogskirkjugarði í dag.
Úr Fossvogskirkjugarði í dag. Mbl.is/Óttar Geirsson

Mikil umferð er um kirkjugarða Reykjavíkur þennan aðfangadag, eins og yfirleitt er. Fyrstu stórfjölskyldurnar voru mættar um sjöleytið í morgun, með hellaljósin límd við höfuðið, að sögn Kára Aðalsteinssonar, garðyrkjustjóra kirkjugarða Reykjavíkur.

„Hér í Fossvogskirkjugarði, þar sem ég er staðsettur í dag, hefur bara verið stöðug umferð síðan snemma í morgun. Fyrstu fjölskyldurnar mættu bara um og upp úr sjö. Vel klædd og hellaljósin klár,“ segir Kári í samtali við mbl.is.

Hann segir umferðina undanfarnar vikur hafa verið býsna mikla. Gærdagurinn hafi þá verið mjög stór einnig.

„Í gær var nú bara umferð á við góðan aðfangadag.“

Fjölskyldur mættu saman og tendruðu kertaljós.
Fjölskyldur mættu saman og tendruðu kertaljós. Mbl.is/Óttar Geirsson

Breyttar venjur fremur en faraldurinn

Mögulegt sé að faraldurinn spili inn í þessa dreifðu umferð, en hann segist þó fremur telja að breyttar venjur landsmanna séu skýringin.

Fælingarmáttur faraldursins hafi verið meiri í fyrra og ástæðan nú gæti verið að margir vilji gera eitthvað annað á aðfangadag og komi því fyrr í garðana.

Þá segir hann langflesta mæta í dag til þess að tendra á kertum og flestir því búnir að gera sér ferð áður til að skreyta leiðin. Síðan beri alltaf aðeins á því að fólk komi aftur milli jóla og nýárs og kveiki á kertum að nýju.

Ögn kalt en þó jólalegt.
Ögn kalt en þó jólalegt. Mbl.is/Óttar Geirsson

Loka fyrir bílaumferð

Kári segir að nú í dag, eins og undanfarin þrjú ár, hafi Fossvogskirkjugarði verið lokað fyrir bílaumferð milli ellefu og tvö í hádeginu. Þetta sé einfaldlega gert vegna þess að garðurinn sé þröngur og því vert að leyfa gangandi vegfarendum að koma á þessum tíma og geta notið sín í garðinum.

„Það er mikill fjöldi í garðinum og svo er hann náttúrlega þröngur og í halla. Ef það snjóar og er hálka þá getur myndast stórhætta að hafa gangandi og bílaumferð á sama tíma í garðinum.“

Kirkjugarðurinn á Selfossi var þá einnig fjölsóttur í dag.
Kirkjugarðurinn á Selfossi var þá einnig fjölsóttur í dag. Mbl.is/Óttar Geirsson
Frá kirkjugarðinum á Selfossi.
Frá kirkjugarðinum á Selfossi. Mbl.is/Óttar Geirsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert