Um 1.000 jarðskjálftar hafa orðið við Fagradalsfjall frá miðnætti og er það svipað og á sama tíma í gær. Stærsti skjálftinn frá miðnætti var 3,4 að stærð og mældist hann klukkan rétt rúmlega tvö í nótt.
Að sögn Bjarka Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands, heldur jarðskjálftahrinan á svæðinu ótrauð áfram og eru skjálftarnir á sama svæði og áður.
Alls voru skjálftarnir tæplega þrjú þúsund talsins í gær og í heildina hafa yfir sjö þúsund skjálftar mælst frá upphafi hrinunnar 21. desember um klukkan 17.
Nýjar gervitunglamyndir styðja GPS-mælingu sem segir að kvika sé á sama stað og fyrir gosið sem hófst í Geldingadölum í mars. Ekki er vitað á hvaða dýpi kvikan er en skjálftavirknin er á um sex til sjö kílómetra dýpi.