Vegna faraldursins þurfti Hjálpræðisherinn í Reykjavík að aflýsa jólaboðinu sem átti að fara fram í dag. Þess í stað hafa matargjafir verið gefnar í dag ásamt jólapökkum.
Vaskur hópur sjálfboðaliða hefur staðið vaktina og útdeilt gjöfunum, sem og skutlað til þeirra sem ekki gátu sótt.
Hjördís Kristinsdóttir, svæðisforingi og flokksleiðtogi Hjálpræðishersins í Reykjavík, segir í samtali við mbl.is að dagurinn hafi gengið vonum framar. Búið sé að gefa matargjafir til rúmlega þrjú hundruð manns.
„Þetta hefur gengið alveg frábærlega fyrir sig. Afskaplega góð jólastemning í hópnum. Við buðum bara upp á kaffi og jólatónlist hérna fyrir utan þar sem fólk kom og sótti gjafirnar og því myndaðist bara létt og gott andrúmsloft.“
Blaðamaður náði tali af Hjördísi laust fyrir klukkan tvö og þá var umferðin í raun að klárast. Búið var að gefa allar þær gjafir sem gert var ráð fyrir, og gott betur, því enn var fólk að koma. En margir voru búnir að skrá sig fyrir fram.
„Fólk gat komið og sótt til okkar en þeir sem ekki sáu sér fært að koma fengu sent heim til sín. Við erum búin að gefa rúmlega 300 manns og svo er enn fólk að koma að. En þetta klárast núna klukkan tvö.“