Urður Egilsdóttir
Sextán ára einstaklingur liggur nú á gjörgæslu í öndunarvél vegna veikinda af völdum Covid-19. Þetta staðfestir Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild, í samtali við mbl.is.
Már gat ekki sagt til um hvort einstaklingurinn væri óbólusettur en alls eru fjórir nú á gjörgæslu, þar af þrír í öndunarvél samkvæmt upplýsingum á vef Landspítala.
Inntur eftir því hvort spítalinn sjái innlögnum fjölga og hvort meira sé um alvarleg veikindi segir Már það ekki endilega vera. Hann segir þó mikla fjölgun vera í hópi þeirra sem séu í eftirliti hjá göngudeildinni en nú eru 3.185 einstaklingar í eftirliti, þar af 822 börn.
Í eftirliti göngudeildarinnar eru allir þeir sem eru með staðfest virkt smit utan spítala, óháð einkennum viðkomandi.
Már segir það mismunandi hvort vitað sé hvaða afbrigði fólk veikist af og því ekki hægt að segja til um hvort Ómíkron-afbrigðið leggist vægar á fólk eða ekki.
„Það hefur ekki komið til aukningar í innlögnum ennþá en það er miklu meira að gera hjá okkur á göngudeildinni. Við erum að skoða miklu fleira fólk á hverjum degi. Það er oftast undanfari þess að við sjáum fleiri innlagnir,“ segir Már.