Gengur og ríður götur norðanpóstsins

Svínaskarð. Bjarki Bjarnason reið í veg fyrir póstinn og bað …
Svínaskarð. Bjarki Bjarnason reið í veg fyrir póstinn og bað hann fyrir bréf að Saurbæ, stílað á séra Hallgrím Pétursson, sálmaskáldið góða. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Ég hef ferðast mikið á milli Norður- og Suðurlands, ekki síst á hestum. Oft hef ég verið á götum norðanpóstsins eða í nágrenni þeirra,“ segir Magnús Pétursson, fyrrverandi ríkissáttasemjari, sem gengur eða ríður, oft í góðum félagsskap, leiðina sem norðanpósturinn fór í yfir tvö hundruð ár og allt fram á fyrstu áratugi síðustu aldar.

Hann einbeitir sér að leiðinni úr Reykjavík í Skagafjörð en í síðarnefnda héraðinu ólst hann upp að hluta og heldur tengslum við gömlu heimahagana.

Vegna þessa áhugaverkefnis hefur Magnús rifjað upp upphaf og sögu póstsamgangna hér á landi, ekki síst með lestri „Söguþátta landpóstanna“ eftir Helga Valtýsson og „Póstsögu Íslands“ eftir Heimi Þorleifsson, en tekur einnig tali heimamenn sem þekkja leiðir póstanna og aflar sér upplýsinga um líklegar leiðir og gamlar götur á milli póstafgreiðslustaða og bréfhirðinga.

Vatnsskarð. Víða má greina gamlar götur sem póstarnir notuðu. Hér …
Vatnsskarð. Víða má greina gamlar götur sem póstarnir notuðu. Hér er riðið um Vatnsskarð, á milli Húnavatnssýslu og Skagafjarðar Ljósmynd/Magnús Pétursson

Upphafið í tilskipun konungs

Landsnefndin sem starfaði 1770-1771 kom inn á lélegar samgöngur í landinu. Ekki var hægt að tala um vegi og engar skipulegar bréfasendingar voru þótt þeim hafi verið komið á í öðrum hlutum Danaveldis löngu áður. Kristján sjöundi Danakonungur gaf út tilskipun á árinu 1776 um að komið yrði á lágmarkspóstsamgöngum milli amtmanna og stiftamtmanns á Bessastöðum. Sýslumenn áttu í upphafi að sjá um flutning póstsins á milli sýslumannssetranna. Fljótt sáu menn að heppilegt væri að fela einum tilteknum manni þessa flutninga. Raunar liðu sex ár frá útkomu tilskipunarinnar þar til fyrsta ferðin var farin, póstferðin að norðan til stiftamtmanns 1783. Einnig voru sunnanpóstur, austurpóstur og vesturpóstur og auka- eða héraðspóstar sem tengdust landpóstunum á ýmsum stöðum.

Fyrsti norðanpósturinn var Gunnar Rafnsson og sinnti hann embætti konungs í meira en tvo áratugi. Hann fór með átján bréf í fyrstu ferðinni, segir sagan. Var stundum látinn hafa bréf „utan tösku“ sem hann mátti afhenda á leiðinni en þau sem voru í töskunni urðu að fara á fyrirframákveðinn áfangastað og áttu að dreifast þaðan.

Töskur á baki og bringu

Í upphafi og lengst af tíma landpóstanna voru allar ár óbrúaðar og ekki hægt að tala um vegi. Fyrstu póstarnir fóru gangandi en síðan ríðandi. Þeir fyrstu voru með töskur á baki og bringu. Fljótlega komst sá háttur á að pósturinn var ríðandi og með einn trússhest í taumi með tvö koffort. Smám saman jukust bréfasendingar og póstarnir fengu sér aðstoðarmenn og árlegum ferðum var fjölgað úr þrem sem fyrirmæli konungs kváðu á um. Dæmi voru um nítján hesta undir koffortum.

Ferðatími á milli Akureyrar og Bessastaða eða Viðeyjar og síðar Reykjavíkur var áætlaður 7-8 dagar en þó gat tíminn lengst í slæmum veðrum og færð eða ef bíða þurfti eftir haustskipinu frá Kaupmannahöfn. Fljótustu póstarnir voru 5-6 daga en lengsta póstferðin mun hafa tekið 66 daga og var þá marga farið að lengja eftir bréfum og fréttum. Tafir gátu einnig verið bagalegar því aðrir póstar treystu á að tímasetningar stæðust þegar þeir komu til móts við landpóstana til að taka við og afhenda bréf og pakka.

Fyrir miðja nítjándu öld fór norðanpósturinn reglulega þrjár ferðir fram og til baka á ári. Póstafgreiðslur og bréfhirðingar voru fastir viðkomustaðir landpósta til að afhenda og taka póst. Póststaðirnir færðust eitthvað á milli bæja en margir þeirra eru enn þann dag í dag þekktir fyrir að hafa annast póstþjónustu í einhver ár og jafnvel um aldir.

Sú regla var að menn buðu í póstþjónustuna til eins árs í senn og það var langt í frá létt starf að vera landpóstur. Auk frátafa frá bústörfum og áhættu sem fólst í starfinu þurftu póstarnir sjálfir að semja við bændur um gistingu og hýsingu hestanna þannig að mun fleiri bæir en þar sem pósthirðing var komu við sögu þeirra. Magnús segir að starf landpósts hafi verið virðingarstarf. Pósturinn hafi ávallt verið velkominn því hann flutti fréttirnar og heillaði stúlkurnar.

Mikilvægi póstsamgangna jókst jafnt og þétt. Póstarnir fluttu ekki lengur eintóm embættisbréf heldur komu nú til peningasendingar, einkabréf og smámsaman dagblöð og tímarit. Þeir fluttu til að mynda fréttir af Fjölnismönnum um sjálfstæðishugmyndir og allt mennta- og menningarefni landsins.

Landspóstur. Hans Karel Hannesson blæs í lúðurinn til að láta …
Landspóstur. Hans Karel Hannesson blæs í lúðurinn til að láta vita af sér. Hans flutti um tíma póstinn úr Reykjavík að Stað í Hrútafirði og var síðar Suðurlandspóstur með Odda á Rangárvöllum sem endastöð Þjóðminjasafn Íslands/Magnús Ólafsson

Póstlúðurinn var mikilvægur

Nýtt og viðameira póstkerfi var byggt upp eftir tilskipun frá Danmörku árið 1873 og var við lýði nokkuð fram á tuttugustu öldina. Þá var sett upp ný og stíf tímaáætlun fyrir póstana að fylgja og gjaldskrá prentuð. Einkennistákn póstanna, pósttaska með látúnsskildi, kom frá Danmörku þetta ár, ásamt póstlúðrinum. Með lúðrinum gátu póstarnir gert vart við sig til merkis um að allt þyrfti að vera til reiðu á póststaðnum og þannig dregið úr hættu á að þeir tefðust.

Um aldamótin 1900 voru um 200 póststöðvar í landinu og þeim fjölgaði ört. Upp úr aldamótum voru póstmenn í landinu orðnir 334, þar af 83 land- og héraðspóstar. Breyting varð um 1930 með því að bílaöldin gekk í garð. Var póstkerfum þá komið í enn fastara form og póststöðvum fjölgað enn.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 23. desember.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert