Jólastemning á troðfullu sóttvarnahóteli

Annasamt er yfir hátíðarnar, eins og svo oft áður í …
Annasamt er yfir hátíðarnar, eins og svo oft áður í faraldrinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Til skoðunar er að opna nýtt sóttvarnahús á nýju ári. 40 laus herbergi eru á hótelinu eins og stendur.

Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður sóttvarnahúsa hjá Rauða krossinum, segir ánægjulegt að tekist hafi í gærkvöldi að tæma biðlistann inn í húsin. Þrátt fyrir allt hafi tekist að mynda jólalega stemningu í húsunum.

„Það eru ekki mörg herbergi laus hjá okkur eins og stendur. Um 40 herbergi og gestirnir í húsunum eru um 190.“

Hátt í þrjú hundruð herbergi eru í sóttvarnahúsunum en sum þeirra krefjast viðhalds eftir mikla notkun undanfarin tvö ár, auk þess sem þrífa þarf öll herbergin eftir notkun.

Nýtt ár, nýtt hótel

Hann segir það til skoðunar eins og er að opna nýtt hótel á nýju ári. Að minnsta kosti ef smittölur haldast á þeirri braut sem þær eru á. Nokkrar staðsetningar koma til greina en lukkulegt væri að hans mati að fá hótel sem hefur verið í notkun áður.

„Þar þekkjum við húsið vel og því myndi uppstillingin á húsinu vera nokkuð fljótleg. En heilbrigðisráðuneytið og Sjúkratryggingar Íslands taka endanlega ákvörðun.“

Gylfi kominn í gallann.
Gylfi kominn í gallann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tilbúnir að fórna sínum jólum

Spurður hvort erfitt hafi reynst að manna vaktirnar í sóttkvíarhúsunum yfir hátíðarnar segir hann: „Nei, það var reyndar ekkert erfitt. Það voru bara allir tilbúnir til að fórna sínum jólum til þess að bjarga jólum annarra.“

Húsunum hafi þá borist gjafir nú fyrir jólin. Lítið heimagert jólatré inn á hvert herbergi frá Bjögunarsveit Hafnarfjarðar og þá hafi bókaútgáfa ein gefið öllum börnum sem eru í húsunum yfir jólin bók að gjöf.

Þá hafi ekki skemmt fyrir að hafa náð að tæma biðlistann í gærkvöldi og náð þar með öllum inn sem þurftu á því að halda.

Ekki henda fólki beint út

Eins og fram kom í haust voru hóteleigendur borgarinnar gjarnir á að vísa gestum sínum rakleiðis út ef upp kom smit. Gylfi segir enn bera á þessu, en þó í minna mæli.

„Það eru bara svona vinsamleg tilmæli frá okkur að leyfa gestum að bíða að minnsta kosti inni á herberginu sínu á meðan við leysum málin, það getur stundum tekið nokkra klukkutíma að bjarga hlutunum og því vont að senda fólk út í kuldann, vitandi lítið um framhaldið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert