Kynhlutlaus jólavinaleikur á Twitter

Rafrænir leynivinaleikir eru mögulega eðlileg þróun. Lítið skal þó fullyrt …
Rafrænir leynivinaleikir eru mögulega eðlileg þróun. Lítið skal þó fullyrt í þeim efnum. Samsett mynd

Hjalti Stefán Kristjánsson, eða „Hjaltilitli“ eins og hann kallar sig á Twitter, stóð í fjórða skiptið fyrir rafræna leynivinaleiknum „Jólatwinur“ á Twitter. Þeir sem taka þátt fá úthlutaðan leynivin sem þeir ekki þekkja og eiga að komast að því hvernig þeir geta glatt viðkomandi með gjöf á jólum.

„Þetta er bara klassískur „secret santa“-leynivinaleikur. Allir fá úthlutað manneskju sem þeir eiga síðan að gleðja um jólin með gjöf,“ segir Hjalti spurður hvað Jólatwinur eiginlega sé.

Leikurinn er hugarfóstur Hjalta og segist hann hafa fengið hugmyndina snemma árs 2017. Hann skrifaði hana niður og gleymdi henni svo. Síðla árs 2017 hafi hann svo rekist á hugmyndina aftur og hugsað með sér „já er það ekki bara“ og lét því verða af þessu.

Ekkert eyðsluþak

Leikurinn hefur verið haldinn árlega frá 2017, þó ekki í fyrra en þá var hópsöfnun fyrir UN Women í staðinn, og hafa aldrei fleiri verið með en í ár. Hjalti segist ekki vera með nákvæmar tölur fyrir síðustu ár en nú í ár hafi 154 tekið þátt í leiknum.

Hann heldur svo utan um skráninguna og sér um að para fólk saman. Síðan sendir hann út reglur leiksins á þátttakendur og sér svo um að fylgja því eftir að allir skili sínum gjöfum tímanlega. Ekki er neitt þak á því hve miklum fjármunum megi eyða í gjafirnar.

„Nei það er ekki hámarksupphæð en þetta snýst samt ekki um að kaupa fínasta dótið heldur að finna leið til þess að kynnast manneskjunni, reyna að átta sig á því hvað gæti glatt hana mest og finna svo gjöf, jafnvel þótt maður þekki viðkomandi ekki neitt.“

Bíddu eru þetta nokkuð eins konar eltihrellaskóli?

„Pínu. Nei ég segi svona. Fólk er nú bara að skoða hvað aðrir gera opinberlega á netinu og þá er þetta nú bara eðlileg nethegðun,“ segir Hjalti léttur í lund.

Hjalti Stefán Kristjánsson jólavinur með meiru.
Hjalti Stefán Kristjánsson jólavinur með meiru.

Hámarksfjölda náð

Töluverð vinna fer í utanumhald á leiknum að sögn Hjalta. Sá fjöldi sem tók þátt í ár sé í raun í það mesta sem hann ráði við einn síns liðs. Meðal reglna leiksins er að allar gjafir þurfa að skila sér á Þorláksmessu og um er að ræða fólk sem ekki þekkist, því var nóg við að vera hjá Hjalta á Þorláksmessu fyrir utan hið almennu verk sem ganga þarf í degi fyrir jól.

„Ég held ég hafi rætt við um 80 manns í gær. Samtöl sem voru í gangi yfir daginn, reddingar og slíkt. Þannig að þetta er svona í það mesta. En svo á aðfangadag þá sit ég bara einn í sófanum minn í myrkrinu og gleðst yfir því hvað allir voru góðir hver við annan.“

Hópur sjálfboðaliða hefur nú haft samband við Hjalta og boðið honum aðstoð við utanumhald og eftirfylgni að ári liðnu og segist Hjalti eflaust munu þiggja það.

#Jólatwin

Hjalti birti tíst á twitter íðu sinni nú í dag sem fangaði athygli blaðamanns. Þar kom fram að nafni leiksins hefði verið breytt. Í stað #Jólatwinur heitir leikurinn nú #Jólatwin. Hjalti segir nafnið nú kynhlutlausara og skilaboð og orðræða innan leiksins geti nú verið það líka.

„Ég er mjög virkur femínisti og mikið af fólki í mínum twitterhring er kynsegin. Ég heyrði í þessu fólki og fékk ráðgjöf til þess að tryggja að allt efni sem kæmi inn á vefinn frá mér væri kynhlutlaust.“

Hjalti hafi síðan áttað sig á því í gær að orðið „vinur“ væri verulega karllægt orð sem gerði honum erfitt fyrir að móta kynhlutlaus skilaboð. „Svo ég bara breytti þessu,“ segir Hjalti.

Eins og áður segir fór leikurinn ekki fram í fyrra vegna ástandsins í samfélaginu sökum veirunnar. Þess í stað hóf hann hópsöfnun fyrir UN Women og nú í ár fer sú söfnun aftur fram samhliða leiknum. Ítarlegri upplýsingar um söfnunina má nálgast hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert