Umkringd mörgæsum um jólin

Paulina og Ármann á Suðurskautsskaganum. Jólin þar eru nokkuð hvítari …
Paulina og Ármann á Suðurskautsskaganum. Jólin þar eru nokkuð hvítari en þau voru á Íslandi. Ljósmynd/Ármann Ragnar

Á meðan flestir íbúar Íslands fengu að upplifa rauð jól eða í besta falli smá föl hér á landi voru jólin hjá Ármanni Ragnari Ægissyni og Paulinu Pierzak, kærustu hans, heldur betur hvít. Eru þau enda stödd við Suðurskautslandið með gríðarlegan fjölda mörgæsa alls staðar í kringum sig eins og Ármann orðar það.

mbl.is náði tali af Ármanni rétt fyrir jól þar sem þau voru á siglingu um Drake-sund milli Suður-Ameríku og Suðurskautslandsins. Eru þau meðal starfsmanna á skemmtiferðaskipinu World Navigator í eigu Atlas Ocean Voyages og hafa frá því í nóvember farið nokkrar siglingar fram og til baka frá Argentínu að Suðurskautslandinu. Í það heila verða ferðirnar þrettán, en tímabilinu lýkur í lok mars eða byrjun apríl. Á þessum árstíma er sumar á Suðurskautslandinu.

Sá staður sem þau sigla til nefnist Suðurskautsskaginn og er risastór skagi út frá Suðurskautslandinu og sá staður sem nær lengst í norður á þessari suðlægu álfu. Segir Ármann að í raun séu viðkomustaðir þeirra á Suðurskautslandinu á svipaðri breiddargráðu suður og Reykjavík er á norðurhveli jarðar. „En það er samt mun kaldara hér og það verða hvít jól,“ segir hann hlæjandi, en þetta svæði býr ekki að sama varma og Golfstraumurinn færir okkur sem búum í Norður-Atlantshafi með hlýjum sjó sunnar af Atlantshafinu.

Mikill fjöldi mörgæsa er að finna á Suðurskautsskaganum.
Mikill fjöldi mörgæsa er að finna á Suðurskautsskaganum. Ljósmynd/Ármann Ragnar

 

„Allt morgunverðarhlaðborðið endaði á gólfinu

Aðeins 200 farþegar mega vera um borð í skipinu, en það stafar ekki af sóttvarnaráðstöfunum heldur af takmörkunum sem settar eru á fjölda gesta sem mega fara í land í hvert skipti á Suðurskautslandinu vegna umhverfissjónarmiða. Þegar mbl.is ræddi við Ármann voru þau komin vel áleiðis á leiðinni yfir Drake-sundið, en hann segir að jafnan sé veður þar einstaklega leiðinlegt. „Það getur verið alveg rosalega mikill öldugangur hér. Í morgun kom stór alda sem náði upp á brú á fimmta þilfari og allt morgunverðarhlaðborðið endaði á gólfinu,“ segir hann.

Helgast þetta af stöðugum lægðum sem fara í kringum Suðurskautslandið og valda veðravíti á þessu sundi. Reyndar er það þannig að sögn Ármanns að vont veður á sundinu þýðir jafnan gott veður á áfangastaðnum, en svo í þau fáu skipti sem veðrið sé gott á sundinu sé það jafnan mjög slæmt á áfangastaðnum. Því hafi það gerst að skipafélagið fresti brottför um einn eða tvo daga til að vera viss um gott veður á áfangastað, en jafnframt að fá slæmt veður á leiðinni suður.

Líkir hann veðrinu á Suðurskautsskaganum við fallegt íslenskt vetrarveður, annaðhvort sól en kalt eða snjókoma. „Fyrir utan allar mörgæsirnar, sem eru alls staðar, þá er þetta smá eins og Ísland,“ segir hann aðspurður hvort slæmt sjólag og kuldi minni ekki á heimahagana.

Um borð í slöngubát á leið frá skipinu og að …
Um borð í slöngubát á leið frá skipinu og að útsýnisstað á Suðurskautsskaganum. Ljósmynd/Paulina

 

„Kem ekki aftur nema taka skíðin með mér“

Það eru þó ekki bara mörgæsir sem verða á vegi þeirra á þessum slóðum. Ármann segir að mikið sé af selum og hvölum. Svo eru það jöklarnir. Ármann sjálfur er vanur leiðsögumaður á Íslandi og hefur mikið farið um íslensku jöklana. Hann segir þetta hins vegar af allt annarri stærðargráðu fyrir sunnan. „Jöklarnir eru alls staðar og miklu stærri en maður gerir sér grein fyrir. Fjöllin eru líka miklu stærri en maður gerði sér grein fyrir. Á myndum virka þau kannski frekar lítil, en eru svo rosalega stór og hrikaleg þegar maður stendur undir þeim,“ segir Ármann.

Þessi stærð jökla og fjalla er í raun það eina sem Ármann segir að hafi komið sér virkilega á óvart. Fyrir ferðalagið hafi hann verið búinn að kynna sér dýralífið og svæðið ágætlega og flest sem hann hafi lesið sér til hafi svo passað við upplifunina, nema þetta með stærð fjallanna og jöklanna. „Ég kem ekki aftur nema taka skíðin með mér,“ segir Ármann hress.

Ármann og Paulina þurftu ekki að hugsa sig mikið um …
Ármann og Paulina þurftu ekki að hugsa sig mikið um áður en þau stukku á tækifærið að starfa í 4-5 mánuði við Suðurskautslandið. Ljósmynd/Ármann Ragnar

Sögðu beint já við boði um starfið

En hvernig kom það til að þau Ármann og Paulina fengu þetta starf? Ármann segir að félagi þeirra sem hafi unnið við leiðsögn á Íslandi hafi unnið við þetta í nokkur ár, bæði við Suðurskautslandið og á norðurslóðum. Vann hann að því að stofna nýtt teymi hjá þessu fyrirtæki og þegar þau voru að ræða við hann um vinnuna hafi hann boðið þeim vinnu. „Og við sögðum bara já,“ segir Ármann þegar hann rifjar þetta upp. Spurður hvort það hafi verið stuttur umhugsunarfrestur hikar hann ekki við og segir: „Já, við sögðum beint já við þessu.“

Starf þeirra felst í ævintýraleiðsögn og fræðslu fyrir gestina á skipinu. Ármann lýsir því þannig að í grunninn séu þau andlit fyrirtækisins um borð. Þau taki á móti fólkinu þegar það kemur um borð, sjái um ýmiss konar fræðsluviðburði og hafi svo umsjón með skoðunarferðum þegar komið er að Suðurskautsskaganum. Þá borði þau alltaf með gestunum og nefnir Ármann að það sé ekki leiðinlegt að geta alltaf komið til baka í skipið og fengið fimm stjörnu veitingar í lok hvers dags.

Tvær „útilegur“ á dag og fyrirlestrar

Þegar þau eru við Suðurskautsskagann er markmiðið að reyna að fara í tvær „útilegur“ á dag eins og Ármann nefnir það. Bæði er farið frá borði fyrir hádegi og eftir hádegi á slöngubátum. Fara þau þá að útsýnisstöðum sem þau Ármann og Paulina hafa áður farið á og undirbúið. Þannig þurfi þau að fara með öryggisbúnað og neyðarskýli í land áður en gestirnir komi og troða leiðirnar að útsýnisstöðunum. Í hádeginu haldi þau svo fræðslufyrirlestur fyrir gestina og um kvöldið sé samantekt á því sem bar fyrir augu gestanna. Til viðbótar sé í boði að fara á kajak þegar veður er gott.

Mörgæsir, mörgæsir og fleiri mörgæsir.
Mörgæsir, mörgæsir og fleiri mörgæsir. Ljósmynd/Ármann Ragnar

Ferðamennirnir sem koma á World Navigator eru eingöngu Bandaríkjamenn að sögn Ármanns. Fyrirtækið hafi komið upp eins konar sóttvarnabúbblu þar sem fólk þurfi að fara í próf fyrir ferð og við komuna og fari svo beint í búbbluna og sé í henni áður en lagt sé af stað. Þrátt fyrir þetta hafi komið upp tilvik þar sem smit hafi komið upp, en allt hafi þó gengið stóráfallalaust fyrir sig og slíkt aðeins valdið smá seinkunum. Segir hann að gestahópurinn sé mjög fjölbreyttur. Um sé að ræða ævintrýafólk, fjölskyldufólk, vinahópa og eldri borgara. „Í raun eru þetta svipaðir hópar og koma til Íslands,“ segir hann.

Mörgæsir og sólmyrkvi

Ármann segir að algengustu tegundir mörgæsa sem þau sjái á þessum slóðum séu hettumörgæsir og Adélie-mörgæsir. Þá hafi þau í eitt skipti farið að eyjunni Suður-Georgíu og séð þar kóngamörgæsir sem séu náskyldar keisaramörgæsum. Í sömu ferð hafi þau einnig séð sólmyrkva, en skipinu var sérstaklega siglt nokkuð af hefðbundinni leið til að fá sem besta sýn á náttúrufyribærið.

Spurður hvernig þau sjái jólin fyrir sér svona fjarri Íslandi segir Ármann að starfsfólkið hafi ákveðið að það ætli að halda jólin saman. Þannig hafi til dæmis verið skipulagður leynivinaleikur milli starfsmannanna og gjafir keyptar í síðustu viðkomu í Argentínu. Þetta sé hins vegar í fyrsta skiptið sem hann er frá fjölskyldunni sinni um jólin og því verði tilfinningin örugglega nokkuð sérstök. Þegar mbl.is ræddi við Ármann var gert ráð fyrir að skipið væri staðsett í sundi sem ber nafnið Meersund á aðfangadagskvöld, en Ármann segir að það sé þröngt sund með jöklum allt í kring.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert