Fimm eru nú á gjörgæslu vegna Covid-19. Spá um fjölda smita er að ganga eftir en ekki spáin um fjölda innlagna. Spítalinn býst við fleiri innlögnum á næstu dögum og hefur sett sig í stellingar. Þetta segir Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild, í samtali við mbl.is.
„Spáin um fjölda er að ganga eftir en spáin um innlagnir hefur ekki ennþá gengið eftir en við erum líka bara rétt að komast inn á það tímabil þar sem við eigum von á fjölguninni.
Ef þessi fjöldi smita verður greindur á hverjum degi fram undir þrettánda og engin fjölgun verður á innlögnum þá er hægt að segja að spáin um útbreiðsluna hafi gengið eftir en spáin um innlagnirnar ekki og þá er það bara lærdómur í sjálfu sér.“
Már sagði fyrir viku í samtali við mbl.is að búast mætti við 600 smitum á dag. Sú spá hefur ekki gengið eftir. Hann telur jólin spila þar inn í.
„Ég held að við eigum eftir að sjá enn þá hærri tölur næstu daga. Ef ekki hefðu verið jól og allir verið hlýðnir og látið prófa sig held ég að við værum að sjá þær tölur núna. Það er gasalegur fjöldi smita í samfélaginu. Hlutfallstala smitaðra í fjölda sýna er fjórða hvert sýni sem segir mér að það sé óheyrilegur fjöldi ógreindur úti í samfélaginu.“
Þá telur Már að innlögnum muni fjölga á næstu dögum. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði það sama í samtali við mbl.is á miðvikudaginn.
„Miðað við spár og reynslu að utan á maður frá og með deginum í dag von á gusu á fólki til innlagnar. Við erum komin í stellingar.“