Nýgengi smita komið yfir 1.000

Nýgengi smita er nú komið upp fyrir 1.000 á síðustu …
Nýgengi smita er nú komið upp fyrir 1.000 á síðustu tveimur vikum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Síðustu sjö daga hafa greinst hér á landi 2.620 innanlandssmit af Covid-19. Til viðbótar hafa greinst 222 smit á landamærunum. Um þriðjungur hefur verið í sóttkví við greiningu, eða 900 manns. Ómíkron-afbrigðið hefur verið í miklum vexti og varð mikil útbreiðsla þess til þess að gripið var til hertra sóttvarnaaðgerða sem voru kynntar af ríkisstjórninni 21. desember. Í dag eru um 2,3% íbúa landsins í einangrun eða sóttkví og nýgengi smita er komið yfir 1.000 á síðustu 14 dögum.

Fyrir nákvæmlega viku sagði Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans, að a.m.k. 160 smit hefðu greinst af Ómíkron-afbrigðinu og að meirihluti þess hefði verið meðal ungs fólks utan sóttkvíar. Sagði hann að búast mætti við 600 smitum á dag á næstunni. Tveimur dögum síðar sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að miðað við þróun faraldursins í nágrannaríkjum Íslands mætti búast við að sjá allt að 800 smit á næstu vikum.

Smitfjöldamet slegið á fimm af síðustu sjö dögum

Það hefur enn ekki raungerst, en met í smitfjölda hefur verið slegið fimm af síðustu sjö dögum. Þannig greindust 220 smitaðir 19. desember og var það mesti fjöldi frá upphafi. Áður höfðu flestir greinst smitaðir innanlands 15. nóvember þegar fjöldinn var 206. Degi síðar, 20. desember, greindust 286 innanlands. Tæplega 20 færri greindust 21. desember, en aftur jókst fjöldinn daginn eftir. Greindust 443 smitaðir 22. desember og svo 448 á Þorláksmessu. Á aðfangadag greindust svo 493 sem er enn met yfir fjölda greindra smita á einum degi frá upphafi faraldursins. Í gær voru smitin aðeins færri, eða 463, en það er þó næstmesti fjöldi smita hingað til.

Síðustu þrjá daga, yfir jólahátíðina, hafa aðeins verið gefnar út bráðabirgðatölur yfir fjölda smita auk fjölda í sóttkví og einangrun, en tölur á covid.is hafa ekki verið uppfærðar. Er því ekki fyrir hendi tölfræði yfir fjölda sýna sem tekin voru, nýgengi eða aðra nánari tölfræði.

Nýgengi smita aukist mikið

Ef hins vegar er miðað við tölur fram að Þorláksmessu á covid.is og bráðabirgðatölur síðustu þrjá daga má sjá að nýgengi smita síðustu tvær vikur er komið upp í 1.002 smit á hverja 100.000 íbúa og 699 smit á hverja 100.000 íbúa síðustu vikuna. Síðustu tölur á covid.is fyrir jólafrí sýna að nýgengi smita var 735 smit á hverja 100.000 íbúa.

Þá má jafnframt sjá að fjöldi innanlandssmita síðustu sjö daga er 2.620, auk 222 smita sem greindust á landamærunum. Til samanburðar greindust 1.137 smit vikuna áður (12.-18. desember) og þegar litið er á allan desember eru smitin orðin 5.038 innanlands.

8.635 í einangrun eða sóttkví

Á aðfangadag var greint frá því hér á mbl.is að um 1,54% af landsmönnum væru í sóttkví eða einangrun, en þá var heildarfjöldi þeirra 5.781. Í dag eru hins vegar 3.526 í einangrun og 5.109 í sóttkví. Samanlagt gerir það 8.635, eða um 2,3% landsmanna miðað við íbúafjölda á landinu á þriðja ársfjórðungi samkvæmt tölum Hagstofunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert