Tveir skjálftar sem mældust á bilinu 3,3 til 3,6 að stærð riðu yfir vestan við Kleifarvatn rétt eftir klukkan 5:10 í morgun. Er það mun nær höfuðborgarsvæðinu en flestir skjálftarnir sem hafa verið í kringum Fagradalsfjall undanfarna daga.
Á vef Veðurstofunnar segir að um sé að ræða svokallaða gikkskjálfta og er talið að orsök þeirra megi rekja til aukins þrýstings við Fagradalsfjall vegna kvikusöfnunar. Í gær reið slíkur gikkskjálfti jafnframt yfir austan við Kleifarvatn, en hann mældist 3,3 að stærð.
Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, sérfræðingur á náttúruvársviði Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að mjög þétt skjálftavirkni hafi verið í morgun sem lýsa megi sem skjálftahviðu. Ekki sé þó um óróapúls að ræða eins og varð í gær. „Það er viðvarandi smáskjálftavirkni, en svo koma hviður með þéttari virkni áður en þær slakna eða deyja út,“ segir hún um skjálftavirknina í morgun.
Virknin hefur verið nokkur við Kleifarvatn í nótt og í morgun og meiri en við Fagradalsfjall. Segir Salomé það alveg eðlilega gikkskjálftavirkni þegar kvikugangurinn undir Fagradalsfjalli sé að búa sér til rými í skorpunni. Við það breytist spennuástandið á Reykjanesskaga og krítísk spenna myndist á svæðinu við Kleifarvatn í austri og í átt að Grindavík í vestri.
Spurð um skjálftann við Keili, sem virðist standa nokkuð sér út úr sem stakur skjálfti á því svæði, segir Salomé að hann sé í norðausturhluta kvikugangsins sem hafi náð upp á yfirborðið við Geldingadali. Eins og sést hafi síðasta vetur teygði gangurinn sig að Keili með tilheyrandi jarðskjálftum.
Frá því á miðnætti hafa tveir aðrir skjálftar mælst sem voru stærri en 3 og reyndust þeir báðir 3,1 að stærð. Annar varð miðja vegu milli Keilis og Fagradalsfjalls, en hinn sunnan megin í Fagradalsfjalli.
Í gær, jóladag, mældust rúmlega 3.000 jarðskjálftar við Fagradalsfjall, sá stærsti 4,2 að stærð kl. 07:26. Frá því að hrinan hófst hafa um 15 þúsund skjálftar mælst, þar af fjórtán 4,0 eða stærri.