„Við veikjumst eins og aðrir“

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Langar biðraðir mynduðust fyrir utan Covid-sýnatöku á Suðurlandsbraut í morgun. Að sögn Ragn­heiðar Óskar Er­lends­dótt­ur, fram­kvæmda­stjóra hjúkr­un­ar hjá Heilsu­gæsl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu, var það vegna veikinda starfsmanna enda veikist heilbrigðisstarfsmenn eins og aðrir.

Fimm starfsmenn sýnatökuteymisins gátu ekki mætt til vinnu í dag en einhverjir höfðu lent í sóttkví og aðrir í einangrun.

„Það er náttúrlega þetta sem gerist með heilbrigðiskerfið; við veikjumst eins og aðrir þannig að við eigum erfiðara og erfiðara með að halda uppi fullri starfsemi og það var það sem gerðist í morgun, við gátum ekki haldið uppi fullri starfsemi samkvæmt áætlun þannig að það tók okkur dálítinn tíma að reyna að manna upp það sem vantaði og þess vegna komu þessar löngu biðraðir,“ segir Ragnheiður í samtali við mbl.is.

Röð í sýnatöku.
Röð í sýnatöku. mbl.is/Sigurður Bogi

3.900 fóru í sýnatöku í dag

2.500 manns fóru í einkennasýnatöku í dag og 1.400 í hraðpróf. 1.600 eru skráðir í einkennasýnatöku á morgun og 650 í hraðpróf. Ragnheiður bendir á að þetta breytist þó hratt og margir skrái sig samdægurs.

Fyrir utan atvikið í morgun segir Ragnheiður að sýnatökur yfir jólin hafi gengið vel og allt hafi gengið að lokum í morgun. „Þau voru bara ótrúlega flott og náðu að klára þarna hálftíma síðar en áætlað var og náðu að klára alla sem áttu bókað svo þetta gekk ótrúlega vel en auðvitað er það náttúrlega ekki gott þegar það er svona löng bið eins og var þarna í morgun.

En þetta er það sem við erum alltaf að tala um varðandi heilbrigðiskerfið, við kannski ráðum ekki við allt saman,“ segir Ragnheiður að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert