Áhættan hugsanlega meiri en ávinningurinn

Jón telur þessar rannsóknir til þess fallnar að breyta umræðunni …
Jón telur þessar rannsóknir til þess fallnar að breyta umræðunni að einhverju leyti.

Niðurstöður rannsóknar í vísindaritinu Nature Medicine fyrr í desember sýna fram á að aukin hætta sé á því að fá hjartavöðvabólgu eftir bólusetningu með bóluefni Moderna, í samanburði við að smitast af veirunni sem veldur Covid-19.

Í annarri grein sem birtist í gær er rýnt betur í þau gögn sem áður voru sett fram. Þar kemur í ljós að tölfræðilega marktækur munur er hjá karlmönnum yngri en 40 ára, ef horft er til tíðni hjartavöðvabólgu eftir þriðja skammt af bóluefni Pfizer og eftir annan skammt af bóluefni Moderna, miðað við tíðnina hjá þeim sem sýkjast af veirunni.

Ættu að hugsa sinn gang

Þetta útskýrir Jón Ívar Einarsson, prófessor við læknadeild Harvard-háskóla, fyrir blaðamanni mbl.is. Um er að ræða einu tvö bóluefnin sem framleidd eru með mRNA-tækni.

„Auðvitað veldur Covid ekki bara hjartavöðvabólgu, það getur valdið alls konar öðrum vandræðum, þannig með þessu er kannski ekki verið að segja að yngri karlmenn ættu að forðast örvunarbólusetningu. Hins vegar ættu þeir að hugsa sinn gang með það,“ segir Jón.

„Vegna þess að það virðist vera hærri tíðni af hjartavöðvabólgu eftir örvunarbólusetningu en eftir að hafa fengið Covid. Ef þú ert heilbrigður karlmaður yngri en 40 ára þá eru mjög litlar líkur á því að veikjast alvarlega af völdum Covid.“

Gögnin breyti umræðunni

Jón telur þessar rannsóknir til þess fallnar að breyta umræðunni að einhverju leyti. Mikilvægt sé að líta til aldurs, kyns og áhættuþátta þegar bólusetningar eru annars vegar.

„Bólusetningar eru samt mjög mikilvægt verkfæri í baráttunni og ég hef alltaf verið hlynntur bólusetningum almennt, sérstaklega fyrir áhættuhópa.“

Vandamálið við seinni fræðigreinina er að sögn Jóns það að aðeins séu skoðuð gögnin fyrir þennan ákveðna hóp, karlmenn yngri en 40 ára. Ekki sé gerður greinarmunur á smærri hópum innan mengisins, eins og til dæmis börnum og unglingum.

„Það getur vel verið að hjá börnum og ungum strákum sé tíðnin eða hættan kannski enn meiri,“ segir Jón og bætir við að hann sjái ekki sterk rök fyrir því að bólusetja heilbrigð börn sem eiga í lítilli hættu á að veikjast alvarlega af völdum veirunnar.

Lúxusvandamál hjá okkur

„Ég er á því að það sé ekki nauðsynlegt að bólusetja heilbrigð börn, því ég hef áhyggjur af því að áhættan hjá þeim við að fá bóluefni gæti hugsanlega verið meiri en ávinningurinn, sérstaklega hjá strákum, en við vitum það ekki nógu vel ennþá.

Þau börn sem eru í áhættuhópum – þeim er vissulega ákveðin áhætta fólgin í því að fá Covid og það er þess virði að vernda þau með bóluefnum,“ segir hann og heldur áfram:

„Mér finnst það vera ákveðið lúxusvandamál hjá okkur að bólusetja einstaklinga sem stafar mjög lítil áhætta af Covid og geta hugsanlega fengið aukaverkanir, á meðan í þróunarlöndum er ekki búið að bólusetja heilbrigðisstarfsmenn einu sinni. Þetta er skrýtin forgangsröðun svona almennt og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur bent á það meðal annars.“

Spurður hvað valdi því að tíðni sé hærri af hjartavöðvabólgu hjá karlmönnum yngri en 40 ára, sem hafa verið bólusettir með mRNA-bóluefni, segir Jón að það sé hreinlega ekki vitað.

Jón segist ekki sjá að það sé stemning í þjóðfélaginu …
Jón segist ekki sjá að það sé stemning í þjóðfélaginu fyrir mjög ströngum takmörkunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þarf að huga að langtímalausnum

„Það er greinilegt að bólusetningar leysa ekki vandann að fullu og ég held að það þurfi að huga frekar að langtímalausnum og hugsa þetta þannig að við eigum örugglega eftir að eiga við þessa veiru töluvert lengi. Þá þarf að hugsa þetta þannig að samfélagið gangi sem best.“

Jón segist ekki sjá að það sé stemning í þjóðfélaginu fyrir mjög ströngum takmörkunum og sérstaklega ekki í langan tíma, en segir þó að mikilvægt sé að undirbúa það betur að aflétta öllu.

„Það þarf að undirbúa það aðeins, ég held að það sé ekki tímabært að sleppa þessu lausu akkúrat núna, en á einhverjum tímapunkti þarf að gera það,“ segir Jón og nefnir meðal annars að gott væri að útbúa sérstaka stofnun fyrir Covid-sjúklinga og hvetja fólk til að fara í bólusetningu áður en öllu yrði aflétt.

Búum okkur undir það versta 

„Spítalakerfið okkar eins og það er núna er veikt og hefur verið það. Þessi faraldur hefur afhjúpað það og það hafa því miður ekki verið gerðar ráðstafanir, þótt við séum búin að vera í þessu í tvö ár, til að laga eða undirbúa það nægilega vel.“

Jón var ekki tilbúinn að segja fyrir um það hvenær hægt yrði að leyfa veirunni að leika lausum hala. Það væri að minnsta kosti ekki strax.

„Ég held að það þurfi meira til áður en við sleppum þessu lausu. Það sem ég hef sagt er: Búum okkur undir það versta og vonum það besta. Við ættum að vera betur undirbúin en þarf, ef eitthvað er. Ég held að það sé betri möguleiki en hinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert