Einn alvarlega slasaður eftir harðan árekstur

mbl.is/Eggert

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt til lögreglunnar á Suðurlandi á tveggja klukkustunda bili 20. desember. M.a. rákust saman tveir bílar. Önnur bifreiðin endaði á hvolfi í vatnsfylltum skurði og annar ökumannanna slasaðist alvarlega. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi. Þar segir að slysin fjögur hafi verið tilkynnt á tímabilinu frá 15:20 til 17:38 mánudaginn 20. desember.

Bifreið valt með tvö börn

Fyrst var bílvelta á Þjórsárdalsvegi þar sem meiðsl á ökumanni bifreiðar sem valt voru minniháttar. Kl. 16:45 valt bifreið út af Biskupstungnabraut. Ökumaðurinn var einn í bílnum og taldi sig ekki þurfa flutning með sjúkrabifreið af vettvangi. Kl. 16:54 valt bifreið á Eyrarbakkavegi og í henni par með tvö börn. Þau voru flutt til aðhlynningar á heilbrigðisstofnun en ekki talin alvarlega slösuð. 

Beita varð klippum til að ná manninum út

Loks varð árekstur tveggja bifreiða á Suðurlandsvegi í Flóa þar sem saman rákust jeppi og jepplingur. Ökumaður var einn í jepplingnum sem valt og endaði á hvolfi úti í vatnsfylltum skurði. Að sögn lögreglu naut hann aðstoðar vegfarenda sem hjálpuðu honum út úr bílnum. Maðurinn er ekki alvarlega slasaður.  

Ökumaður jeppabifreiðarinnar var aftur á móti fastklemmdur í bifreiðinni og alvarlega slasaður. Bifreiðin var mikið skemmd og hafnaði utan vegar og  þurfti tækjabúnað Brunavarna Árnessýslu til að losa hann. Farþegi í sama bíl slapp lítið meiddur.  

Svo virðist sem ökumaður jepplingsins hafi verið að aka fram úr röð bifreiða og ekki náð að ljúka framúrakstrinum og því lent framan á jeppanum. Tjón varð á a.m.k. tveimur bílum öðrum vegna braks sem þeyttist frá bifreiðunum sem í árekstrinum lentu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert