Hópsmit á Landspítalanum

Smit hafa komið upp á hjartadeild Landspítalans og á Landakoti.
Smit hafa komið upp á hjartadeild Landspítalans og á Landakoti. Ljósmynd/mbl.is

Sjö kórónuveirusmit eru komin upp á meðal sjúklinga hjartadeildar Landspítalans.

Þá hefur einnig greinst smit á Landakoti. Óljóst er hversu mörg smitin þar kunna að vera.

Þetta staðfesti Andri Ólafsson, upplýsingafulltrúi Landspítalans, í samtali við mbl.is fyrr í kvöld.

Í tilkynningu sem spítalinn sendi út í kjölfar samtalsins segir að í gær hafi sjúklingur á hjartadeildinni greinst með Covid-19.

Í framhaldinu hafi allir sjúklingar á deildinni verið skimaðir, en það sem af er þessum degi hafa sex sjúklingar á deildinni til viðbótar greinst með sjúkdóminn.

Smit einnig breiðst út á meðal starfsmanna

Deildinni hefur verið lokað fram til morguns á meðan verið er að bregðast við, rekja og skima.

Útbreiðsla meðal starfsmanna er sögð einhver en umfangið sé ekki ljóst á þessari stundu.

Allir sjúklingar á deildinni hafa að sögn verið upplýstir. Verið sé að vinna í að upplýsa aðstandendur þeirra, en unnið sé eftir verklagi farsóttarnefndar um hópsmit á spítalanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert