Í Harvard og á þingi til skiptis

Gunn­hild­ur sker sig aðeins úr þingmannahópnum, enda yngsti varaþingmaður­inn í …
Gunn­hild­ur sker sig aðeins úr þingmannahópnum, enda yngsti varaþingmaður­inn í sögu Íslands, 19 ára og átta mánaða að aldri. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég vona bara að niðurstaðan úr þessu verði að ungt fólk sjái að það er einhver á þingi á þeirra aldri og að þetta er ekki jafn „hræðileg“ stofnun og hún lítur út fyrir að vera,“ segir Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir í samtali við mbl.is létt í bragði.

Hún tók sæti sem varaþingmaður í dag fyrir þingflokk Pírata og varð þar með yngsti varaþingmaður Íslandssögunnar. Gunnhildur er mörgum kunnug enda látið að sér kveða í samfélagsumræðunni á sviði umhverfismála og barist fyrir nýrri stjórnarskrá, einkum á samfélagsmiðlinum TikTok, sem hrinti af stað umræðu um málefnið.

Tímanum ráðstafað vel í jólafríinu

mbl.is tók einnig Lenyu Rún Taha Karim tali en hún var fimmti yngsti varaþingmaðurinn til þess að taka sæti á þingi.

Gunnhildur stundar nú nám við Harvard-háskóla í umhverfisfræðum og stekkur inn á þing í jólafríinu á Íslandi fyrir Björn Leví með stuttum fyrirvara. Lenya hafði fengið kynningu á þingstörfum á meðan undirbúningsnefnd kjörbréfanefnd var að störfum en Gunnhildur fékk stutta kynningu á þinginu í morgun. 

„Ég myndi aldeilis ekki kjósa að gera neitt annað í jólafríinu. Einhverjir varaþingmenn hafa talað um að þeir hefðu viljað verja fríinu sínu öðruvísi en ég er bara: „Ha?“ Þetta er það besta sem maður getur gert yfir jólin,“ segir Gunnhildur létt. 

Hún segist munu nota það sem hún lærði í hagfræðinni í skólanum nú strax þegar hún kemur inn á þing.

„Ég er að nota það sem ég lærði í hagfræðinni beint inn á þing. Við vorum einmitt að ræða um kolefnisskatt í tíma rétt áður en ég fór út, síðan erum við bara að ræða um kolefnisskatt hér. Maður fær ekki betri upprifjun yfir jólafríið,“ segir hún.

Kristinn Magnússon
Lenya Rún Taha Karim tók einnig sæti varaþing­manns í þing­flokki …
Lenya Rún Taha Karim tók einnig sæti varaþing­manns í þing­flokki Pírata en hún verður fimmti yngsti varaþingmaður­inn til þess að taka sæti á Alþingi. Kristinn Magnússon

„Ákveðinn andi með okkur í dag“

Lenya segist hafa búist við því að setjast inn á þing fyrr eða síðar en tímasetningin sé engu að síður sérstök, þar sem þingið leggur nú kapp á að klára fjárlögin á stuttum tíma. 

„Það er bara svolítið skrýtið að koma inn núna, þegar við erum í miðju kappi að klára fjárlögin, en þetta sýnir okkur einmitt líka hvernig þetta á ekki að vera gert,“ segir Lenya.

Gunnhildur og Lenya sýndu hvor annarri stuðning og mættu í stíl á þingfund í dag, þar sem báðar fluttu jómfrúrræður sínar – Gunnhildur kom meðal annars inn á kolefnisskatt og Lenya vakti máls á fjármálum Háskóla Íslands, sem hagnast meðal annars á spilakössum.

„Mér finnst vera ákveðinn andi með okkur í dag. Við erum í hvítum jakkafötum og það er bara góð stemning hérna. Heiður að fá að taka þátt í störfum þessarar virðulegu stofnunar og okkar merkilega lýðræðisferli,“ segir Gunnhildur.

Þrátt fyrir að tímasetningin sé sérstök telja Gunnhildur og Lenya að vel sé hægt að hafa áhrif í dag, enda komi fjárlögin ýmsu við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert