„Jólin voru ekki gleðileg í ár“

Sigurður Þ. Ragnarsson þakkar fyrir þær hlýju kveðjur sem honum …
Sigurður Þ. Ragnarsson þakkar fyrir þær hlýju kveðjur sem honum hafa borist.

Árni Þórður Sigurðarson, 29 ára piltur, liggur nú þungt haldinn á Landspítalanum vegna alvarlegrar fjölþátta líffærabilunar. Honum hefur verið haldið sofandi í öndunarvél í viku.  

„Þetta er gríðarlegt áfall. Þetta er mjög efnilegur strákur. Hann fór í Íþróttaskólann á Laugarvatni, síðan réð hann sig sem tollvörð á Keflavíkurflugvelli og menntaði sig svo sem tollvörður. Framtíð hans er ekkert nema björt. Maður er orðinn óþreyjufullur að fara að sjá einhver merki um að hann sé á bataleið,“ segir faðir Árna, Sigurður Þ. Ragnarsson, í samtali við mbl.is.

Reynir að halda höfði

Sigurður segir fjölskylduna passa sérstaklega vel upp á sóttvarnir núna þegar svona mörg smit greinast daglega. 

„Við erum í okkar kúlu og pössum að fara ekkert. Það er auðvitað heimsóknabann á spítalanum en þar sem hann er svo mikið veikur má einn koma og hann er þá sótthreinsaður í bak og fyrir.

Jólin voru ekki gleðileg í ár, þau voru erfið. Maður reynir að halda höfði. Það er ljóst að eftir svona áföll þarf maður sjálfsagt að leita sér aðstoðar til að ná jafnvægi í sitt líf aftur. Jafnvel þó að hann nái sér.“

Fagleg störf á spítalanum

Sigurður er einstaklega þakklátur starfsfólki spítalans og þeim sem hafa sent fjölskyldunni fallegar kveðjur og bænir.

„Ég er rosalega þakklátur læknunum og hjúkrunarfræðingunum á spítalanum fyrir fagleg störf. Manni finnst maður vera í góðum höndum. Mér þykir einnig óskaplega vænt um þennan samhug sem við höfum fengið. Fólk er að biðja fyrir manni og vona að allt fari vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert