Lokað þinghald í dómsmáli um einangrun

Málin fara fram fyrir luktum dyrum.
Málin fara fram fyrir luktum dyrum.

Fjölmiðlafólk kom að læstum dyrum héraðsdóms í dag þegar taka átti fyrir lögmæti einangrunar en Arnar Þór Jónsson lögmaður staðfesti fyrir utan héraðsdóm að þinghald yrði lokað. 

Mbl.is náði tali af Arnari fyrir utan dóminn en aðspurður segist hann ekki hafa sjálfur óskað eftir lokuðu þinghaldi.

Nú er um að ræða kröfu fólks sem er í einangrun í afmarkaðan tíma. Ef fólk er laust úr einangrun liggur ekki lengur nein krafa fyrir dómi. Kallar þetta ekki á flýtimeðferð?

„Já. Það verður að vera vegna þess að einangrunarvistuninni lýkur 28.-30. desember hjá þessu fólki. Þannig að það verður að vera fljót afgreiðsla,“ segir Arnar. Hann býst við niðurstöðu eigi síðar en á morgun.

Myndi þýða að fólki væri treyst til að meta eigin heilsu

Óskaðir þú eftir lokuðu þinghaldi í málinu?

„Nei. Það í rauninni leiðir af reglunum, í fyrsta lagi jólalokun og í öðru lagi að þetta er þess háttar mál. Ef þetta væri gæsluvarðhaldsmál væri þinghaldið lokað. En auðvitað er almenna reglan að þetta sé allt opið, það er réttaröryggismál að svo sé.“

Málin fimm sem tekin verða fyrir í dag snúast um lögmæti PCR-prófa og hvort þau séu nægur grundvöllur einangrunar fyrir einkennalausa. 

Hvaða þýðingu hefði það ef einangrunin yrði dæmd ólögmæt í einhverjum af þessum málum?

„Ef þetta verður dæmt ólögmætt hefur það þær afleiðingar að fólki er treyst til að meta sína eigin heilsu og hvort það sé forsvaranlegt að fara út á meðal manna á meðan það er með einkenni. Við höfum lifað þannig síðustu árhundruð. Ég er ekki viss um að við eigum að taka upp nýja siði. En ef þú horfir á ískaldar tölur ...“ sagði Arnar en náði ekki að klára mál sitt og var kallaður inn í héraðsdóm, þar sem aðalmeðferðin var að hefjast. 

Sóttvarnalæknir bíður átekta

Í aðalmeðferðinni mun sóttvarnalæknir svara spurningum er varða einangrunina, þar sem málið er höfðað gegn embættinu. Rétt fyrir þinghaldið í dag sagðist hann bíða átekta en allir hefðu rétt á að leita réttar síns:

„Við búum í réttarríki og það er bara sjálfsagður réttur allra að láta reyna á það ef þeir telja sig vera beitta órétti. Ég get ekki annað sagt um það,“ sagði Þórólfur í samtali við mbl.is. Spurður hvaða afleiðingar það hefði, yrði einangrunin dæmd ólögmæt, sagði Þórólfur best að sjá hvernig lyktirnar yrðu.

„Við verðum bara að skoða það þegar að því kemur,“ sagði hann.

Arnar Þór Jónsson, lögmaður.
Arnar Þór Jónsson, lögmaður. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert